„Við vorum að leika við gríðarlega sterkt rúmenskt landslið sem fór flestum að óvörum í forsetabikarinn á HM vegna óvænts tap fyrir Sviss í riðlakeppninni,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari 18 ára landsliðs kvenna í handknattleik í skilaboðum til handbolta.is í dag eftir 13 marka tap íslenska landsliðsins, 27:14, fyrir rúmenska landsliðinu í síðari viðureigninni í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Kína.
Erfitt að skora
„Eftir að mörgu leyti fínan fyrri hálfleik þrátt fyrir aðeins of marga tæknifeila þá vorum við nokkuð sátt við stöðuna í hálfleik. Eftir að hafa farið yfir hlutina hálfleik þar sem rætt var um hvað við vildum gera betur þá gekk það ekki eftir þegar á hólminn var komið. Í síðari hálfleik áttum við í mjög miklum erfiðleikum með að skora gegn gríðarlegri sterk vörn Rúmeníu. Fyrir vikið fengum við alltof mörg mörk á okkur eftir hraðaupphlaup,“ sagði Rakel Dögg en íslenska liðið tapaði síðari hálfleik með 10 marka mun, 15:5.
„Heilt yfir var frammistaða okkur í síðari hálfleik vonbrigði. Færa- og skotnýtingin var slæm sem leiddi til þess að rúmenska liðið fékk alltof mörg hraðaupphlaup.“
Höldum áfram að vinna
Rakel Dögg sagði ekkert annað vera í stöðunni en að halda áfram að draga lærdóm af frammistöðunni, jafnt fyrir leikmenn sem þjálfara. „Þrátt fyrir allt þá hafa stelpurnar verið að bæta sig eftir því sem á mótið hefur liðið. Við höldum áfram að einblína á okkar leik og vinna í framförum eftir bestu getu,“ sagði Rakel Dögg ennfremur.
Framundan eru tveimur síðustu leikirnir á mótinu, gegn Indverjum á fimmtudaginn í krossspili um sæti 25 til 28 og síðasti leikurinn á föstudaginn við landslið Angóla eða Kasakstan.
„Þátttakan er hluti af þroskaferli ungra leikmanna sem eru að stíga skref til framfara með hverjum leiknum á heimsmeistaramótinu,“ sagði Rakel Dögg Bragasdóttir þjálfari 18 ára landsliðs kvenna í skilaboðum til handbolta.is í hádeginu í dag eftir viðureignina við Rúmeníu á heimsmeistaramótinu í í Chuzhou í Kína í morgun.
HM18 kvenna – leikjadagskrá, milliriðlakeppni, úrslit
Þrettán marka tap fyrir Rúmenum – sérlega erfiður síðari hálfleikur