- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur án eins síns mikilvægasta leikmanns fyrstu vikurnar

Magnús Óli Magnússon sækir að varnarmanni Olympiakos í fyrri undanúrslitaleik Evrópubikarsins í vor. Ljósmynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
- Auglýsing -

Magnús Óli Magnússon leikur ekki með Evrópubikarmeisturum Vals á fyrstu vikum keppnistímabilsins. Hann gekkst undir aðgerð í sumar vegna brotins þumalfingurs á hægri hönd. Aðgerðin gekk vel en vegna þess á hversu viðkvæmum stað brotið var fyrir handknattleiksmenn verður Magnús Óli að gefa sér góðan tíma til þess jafna sig að fullu, að sögn Óskars Bjarna Óskarssonar þjálfara Vals.

„Ég reikna ekki með að Magnús Óli verði með okkur fyrr en eftir 20. september, í fyrsta lagi,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við handbolta.is í morgun. Mikilvægt sé að Magnús gefi sér góðan tíma til að fá brotið til að gróa eftir aðgerðina eða allt að 12 vikur.

Þumalfingurinn á Magnúsi Óla brotnaði í úrslitaleik Poweradebikarsins í mars. Eftir það lék hann stífteipaður til að gera ekki illt verra með það að markmiði að ljúka keppnistímabilinu enda stóð Magnús Óli í ströngu með samherjum sínum allt fram í maí þegar Evrópubikarkeppnin var leidd til lykta.

Markahæstur í Evrópukeppni

Magnús Óli hefur verið burðarás Valsliðsins undanfarin ár eftir að hann gekk til liðs við félagið 2017. M.a. er hann markahæsti leikmaður félagsins í Evrópuleikjum með 173 mörk.

Magnús Óli skrifaði undir tveggja ára samning við Val í upphafi þessa árs.

Valur mætir FH í Meistarakeppni HSÍ í Kaplakrika annað kvöld klukkan 19.30. Skammt er stórra högga á milli en á laugardaginn leikur Valur við RK Bjelin Spacva Vinkovci í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildar.

Leikjadagskrá Olísdeilda

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -