Fargi er létt af Óskari Bjarna Óskarssyni og Valsmönnum eftir að svartfellski línumaðurinn Miodrag Corsovic fékk leikheimild fyrir hádegið í dag. Corsovic getur þar með leikið með Valsliðinu á laugardaginn gegn RK Bjelin Spacva Vinkovci í forkeppni Evrópdeildarinnar í handknattleik karla. Leikurinn hefst klukkan 17.30 í N1-höll Valsara.
Tilkynnt var um komu Miodrag Corsovic rétt fyrir síðustu helgi en nokkurn tíma hefur tekið að afgreiða öll nauðsynleg gögn til þess að hann verði gjaldgengur með Valsliðinu. Hann var ekki með Val í gær í leiknum við FH í Meistarakeppni HSÍ.
Corsovic 24 ára gamall, 198 sentímetrar á hæð og 97 kíló að þyngd og hefur undangengin þrjú ár leikið með Trimo Trebnje í Slóveníu, m.a. í riðlakeppni Evrópudeildar sem Valur keppist við að öðlast sæti með viðureignunum við RK Bjelin Spacva Vinkovci á heimavelli á laugardaginn og viku síðar í Króatíu.
Sjá einnig: FH-ingar hefja keppni í Evrópudeildinni í Toulouse