- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Benedikt Gunnar lét strax að sér kveða í Noregi

Harald Pedersen þjálfari hjá Kolstad með Benedikt Gunnari Óskarssyni. Ljósmynd / Tore Sæther / Kolstad Håndball
- Auglýsing -

Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk í fyrsta leik sínum með norska meistaraliðinu í Kolstad í dag þegar keppni hófst í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla. Kolstad vann Runar í heimsókn sinni suður í Sandefjord, 37:34. Sex mörkum munaði á liðunum þegar fyrri hálfleikur var að baki, 22:16.

Benedikt Gunnar gekk til liðs við Kolstad í sumar eftir að hafa gert það gott með Val á síðustu árum en hann kvaddi félagið með því að vera í stóru hlutverki í sigurliði Evrópubikarkeppninnar í vor.

Benedikt Gunnar í þann mund að skora úr öðru af tveimur vítaköstum sínum í Sandefjord í dag. Mynd/Aðsend

Tvö marka sinna skoraði Benedikt Gunnar úr vítaköstum. Hann var hiklaust gerður að vítaskyttu liðsins og brást ekki traustinu. Einnig átti Benedikt Gunnar tvær stoðsendingar.

Sveinn var fastur fyrir

Sveinn Jóhannsson gerðist einnig liðsmaður norsku meistaranna í sumar. Hann skoraði ekki í dag en gekk vasklega fram í vörninni. Mátti hann bíta í það súra epli að vera einu sinni vikið af leikvelli.

Sigvaldi Björn Guðjónsson, fyrirliði Kolstad, tók ekki þátt í leiknum. Magnus Søndenå var markahæstur með níu mörk.

Sigurjón byrjaði á sigurleik

Sigurjón Guðmundsson markvörður lék sinn fyrsta leik með Charlottenlund, systurliði Kolstad, í dag. Hann stóð lengst af í marki liðsins í naumum sigri á Tiller, 29:28, í næst efstu deild norska handknattleiksins. Sigurjón varði sex skot, 20%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -