Valur og Haukar leika báðar viðureignir sína í 1. umferð Evrópubikarkeppni kvenna á útivelli 5. og 6. október. Þetta kemur fram á vef Handknattleikssambands Evrópu, EHF.
Valur leikur gegn Zalgiris Kaunas í Garliava Litáen laugardaginn 5. og sunnnudaginn 6. október. Báðar viðureignir eiga að hefjast um miðjan dag.
Svipaða sögu er að segja af þátttöku Hauka, sem spreyta sig í Evrópukeppni félagsliða í kvennaflokki í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið. Hafnarfjarðarliðið mætir KTSV Eupen í Eupen í Belgíu sömu daga og Valur verður í Litáen.
Sigurliðin komast í 32-liða úrslit Evrópubikarkeppninnar sem fram fer í fyrri hluta nóvember.
Karlalið Hauka kemur inn í aðra umferð Evrópubikarkeppni karla og mætir HC Cocks á Ásvöllum 20. október og 26. október í Riihimäki í Finnlandi.