Einn leikmanna Kríu, Aron Valur Jóhannsson, var í gær úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ. Nefndin kemur oftar saman þessa dagana en venjulega sökum þess að þétt er leikið í úrslitakeppni og umspili. Aron Valur gekk full harkalega fram í oddaleik Kríu og Fjölnis í vikunni og verður að súpa seyðið af því.
Tryggvi Þórisson, ungur og efnilegur leikmaður Selfoss, slapp við bann þrátt fyrir útilokun með skýrslu í viðureign Gróttu og Selfoss í lokaumferð Olísdeildar á fimmtudagskvöldið. Tryggvi er hinsvegar minntur á stighækkandi áhrifum útilokana vegna slíkra brota í úrskurði aganefndar sem birtur var á vef HSÍ síðdegis í gær og birtist hér að neðan.
Aron Valur Jóhannsson leikmaður Kríu hlaut útilokun með skýrslu vegna óíþróttamannsleg hegðunar í leik Fjölnis og Kríu í umspili Olís deildar karla 25.5.2021. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar.
Tryggvi Þórisson leikmaður Selfoss hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Gróttu og Selfoss í Olís deild karla þann 27.5.2021. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.