- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sextán íslensk mörk í tveimur leikjum í Noregi

Dagur Gautason leikmaður ØIF Arendal. Mynd/Helge Olsen
- Auglýsing -

Íslenskir handknattleiksmenn létu talsvert til sín taka í annarri umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Sveinn Jóhannsson var markahæstur í Íslendingatríóinu hjá Kolstad þegar liðið vann Bergen Håndball, 36:30, í Björgvin.

Sveinn skoraði fimm mörk í sex skotum. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði þrjú mörk í fjórum skotum. Sigvaldi Björn Guðjónsson, fyrirliði Kolstad, skoraði einu sinni.

Leikmenn Kolstad safna nú kröftum fyrir fyrsta leikinn í Meistaradeild Evrópu sem fram fer á miðvikudagskvöld í Þrándheimi. Evrópumeistarar Barcelona koma í heimsókn.

Dagur markahæstur

Akureyringurinn Dagur Gautason var markahæstur hjá ØIF Arendal í þriggja marka sigri á heimavelli þegar liðsmenn Sandnes komu í heimsókn, lokatölur 32:29. Dagur skoraði sjö mörk í 10 skotum. ØIF Arendal var sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:10.

Árni Bergur Sigurbergsson var í leikmannahópi ØIF Arendal en var ekki á meðal þeirra sem hafði sig í frammi, hvort heldur í vörn eða sókn.

ØIF Arendal hefur fjögur stig eftir tvo leiki eins og Kolstad og Runar. Drammen getur komið upp að hlið liðanna á toppnum takist liðinu að vinna í heimsókn til Nærbø í dag.

Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.

Sigur hjá Sigurjóni

Í næst efstu deild norska handknattleiksins unnu Sigurjón Guðmundsson og samherjar í Charlottenlund öruggan sigur á Storhamar, 33:23, á heimavelli. Charlottenlund hefur þar með unnið tvær fyrstu viðureignir sínar í deildinni.

Sigurjón kom aðeins við sögu í leiknum í gær. Hann varði eitt skot þann stutta tíma sem hann fékk að spreyta sig enda var samherji hans Øyvind Varpe í stuði í markinu að þessu sinni.

Sigurjón lék nær allan fyrsta leik Charlottenlund sem fram fór fyrir viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -