- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta var engan veginn ásættanlegt“

Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari karlaliðs Víkings. Mynd/Víkingur
- Auglýsing -

„Því miður þá voru þetta einstaklingar í Víkingi sem mættu liðsmönnum Kríu. Við vorum undir í öllum þáttum leiksins og verðum virkilega að skoða hvernig við undirbúum okkur og mætum til leiks því þetta var engan veginn ásættanlegt,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari karlaliðs Víkings við handbolta.is. Víkingur steinlá fyrir Kríu, 32:25, í fyrstu viðureign liðanna úrslitum umspilsins um sæti í Olísdeild karla í handknattleik í gær.

Hörmulegt nýting

„Við vorum með rétt um 20% markvörslu, það eitt og sér lýsir effortinu sem við leggjum í varnarleikinn. Sóknarleikurinn var síður en svo betri. Við klúðrum fimm hraðaupphlaupum og þremur vítaköstum auk aragrúa af öðrum færum. Ég tek það ekkert af Sigurði [Ingiberg Ólafsson] hjá Kríu að hann átti stórleik með 50% markvörslu en að sama skapi gerðum við honum oft auðvelt fyrir að verja frá okkur. Uppstillt sókn, víti eða hraðaupphlaup, við erum undir 50% nýtingu í þessu öllu,“ sagði Jón Gunnlaugur afar óhress enda þolir liðið ekki annað tap í leiknum í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi á þriðjudagskvöld.

Ekkert spennustig

„Ég er ekki á því að spennustigið hafi verið of hátt. Ég tel að það hafi hreinlega ekki verið neitt spennustig. Það vantaði Krissa [Kristján Orri Jóhannsson markahæsti leikmaður Grill66-deildarinnar] í lið Kríu, sem hefur verið þeirra markahæsti leikmaður. Mínir menn héldu eflaust að það myndi veikja lið Kríu og að þetta yrði eitthvað auðveldara verkefni. Annað kom á daginn. Það voru fjölmargir sem tóku við keflinu hjá Kríumönnum, með Daða [Laxdal] fremstan í flokki,“ sagði Jón Gunnlaugur og bætti við.

Dapurt að sjá

„Það var bara virkilega dapurt að sjá hvernig við mætum til leiks í úrslitaseríu. Það eina góða við þennan leik er að það er ansi auðvelt að gera betur og að við fáum tækifæri til þess strax á þriðjudaginn,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings þungur á brún í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -