Færeyski handknattleiksmaðurinn Sveinur Olafsson er gjaldgengur með Aftureldingu eftir að gengið var frá félagaskiptum hans frá H71 í dag eftir því sem fram kemur á félagaskiptasíðu HSÍ.
Eins og handbolti.is greindi frá á dögunum þá stóðu félagaskiptin föst vegna þess að færeyska handknattleikssambandið krafðist, með réttu, uppeldisbóta fyrir Sveinur. Mosfellingar voru ekki á þeim buxunum að greiða allt að hálfri milljón króna í uppeldisbætur auk annars eins í alþjóðlegt félagaskiptagjald sem ekki verður komist undan að greiða.
Landi Sveinurs, Hallur Arason, er fyrir nokkru kominn með grænt ljós og hefur þegar tekið þátt í einni viðureign með Aftureldingu í Olísdeildinni.
Sveinur er ekki á atvinnumannasamningi hér á landi, heldur vinnur fyrir sér auk þess að leika handknattleik. Stefndi jafnvel í að ekkert yrði úr samningum á milli Sveinurs og Aftureldingar af þessum sökum.
Nú virðist hafa verið hoggið á hnútinn því Færeyingurinn er kominn með leikheimild. Hvort það þýðir að hann verður í leikmannahópi Aftureldingar í kvöld gegn Val verður að koma í ljós. Mosfellingar sækja Valsmenn heim í N1-höllina á Hlíðarenda klukkan 19.30. Leikurinn verður í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.