Svo kann að að fara að HSÍ semji við annan íþróttavöruframleiðanda en þýska fyrirtækið Kempa varðandi keppnis- og æfingabúninga fyrir landsliðin og að nýr samningur hafi tekið gildi þegar kvennalandsliðið tekur þátt í Evrópumótinu í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi í lok nóvember og í desember. Landslið HSÍ hafa klæðst æfinga- og keppnisbúningum frá Kempa í 20 ár. Þess vegna verður um tímamót að ræða fari svo að HSÍ semji við annan framleiðanda íþróttafatnaðar.
„Það mun koma í ljós. Ég get ekkert staðfest í þessum efnum,“ svaraði Róbert Geir spurður af umsjónvarmönnum Handkastsins hvort landsliðin leiki í Kempa búningum á næstu stórmótum en auk EM kvenna þá tekur karlandsliðið þátt í HM karla í janúar. Þess utan hefst undankeppni EM 2026 í karlaflokki í byrjun nóvember með tveimur leikjum hjá karlalandsliðinu, heima gegn Bosníu og á útivelli við Georgíu.
„Ég vona að niðurstaðan verði ljós fyrir næstu mánaðamót,“ sagði Róbert Geir þegar gengið var á hann um skýrari svör í Handkastinu.
Orðrómur hefur verið uppi síðustu vikur og mánuði að annað hvort semji HSÍ við Adidas eða Puma. Íslensku landsliðin voru áratugum saman í búningum frá Adidas og síðar um skeið í búningum frá Puma í upphafi þessarar aldar.
Þáttinn í heild er að finna hér fyrir neðan.