- Auglýsing -
- Auglýsing -

Taugaspenna tók völdin að Varmá og niðurstaðan jafntefli í toppslag

Anna Katrín Bjarkadóttir, Aftureldingu, og félagar gerðu jafntefli við KA/Þór að Varmá í kvöld. Ljósmynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding og KA/Þór skildu jöfn í æsispennandi leik í Grill 66-deild kvenna í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld, 25:25. Bæði lið áttu sókn á síðustu mínútunni en spennan tók völdin, vopnin snerust í höndum leikmanna sem varð þess valdandi að hvorugu liðinu lánaðist að skora sigurmarkið þótt tækifærin hafi verið fyrir hendi, ekki aðeins á síðustu mínútunum heldur þrjár síðustu mínúturnar eftir að KA/Þór jafnaði metin, 25:25, í kjölfar þess að Afturelding skoraði sex mörk í röð.

Segja má að um stórmeistarajafntefli hafi verið að ræða því liðunum var spáð tveimur efstu sætum deildarinnar í árlegri spá þjálfara og fyrirliða á dögunum.

KA/Þór og Afturelding hafa þar með þrjú stig hvort þegar tveimur umferðum af 18 er lokið.

KA/Þórsliðið var yfir lengst af fyrri hálfleiks. Aftureldingar liðið var öflugt á síðustu mínútum fyrri hálfleiks, vann upp þriggja marka forskot KA/Þórs og jafnaði, 13:13 og 14:14, áður en Anna Þyrí Halldórsdóttir skoraði fimmtánda mark KA rétt áður en leiktíminn var á enda í fyrri hálfleik, 15:14.

Framan af síðari hálfleik virtist KA/Þórsliðið vera staðráðið í að fara með bæði stigin í farteski sínu norður í höfuðstaðinn. Forskot liðsins jókst jafnt og þétt allt þangað til 13 mínútur voru til leiksloka og munurinn var fimm mörk, 24:19. Kálið var svo sannarlega ekki sopið hjá KA/Þórsliðinu.
Aftureldingarliðið herti hressilega upp hugann. Vörnin styrktist og Saga Sif Gísladóttir, þrautreyndur markvörður Aftureldingar, hrökk í stuð. Jafnt og þétt saxaði Afturelding niður forskotið og komst yfir með marki Sigríðar Bjargar Þorsteinsdóttur, 25:24, sex mínútum fyrir leikslok.

Matea Lonac markvörður KA/Þórs stóð einnig fyrir sínu og varði úr opnu færi. Kom hún í veg fyrir að Afturelding næði tveggja marka forskoti. Unglingalandsliðskonan Bergrós Ásta Guðmundsdóttir jafnaði metin fyrir KA/Þór rúmum þremur mínútum fyrir leikslok. Þótt enn væru þrjár mínútur eftir var leikmönnum fyrirmunað að skora fleiri mörk þótt hver sóknin ræki aðra í rífandi góðri stemningu meðal fjölmargra áhorfenda að Varmá í kvöld.

Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.

Mörk Aftureldingar: Katrín Helga Davíðsdóttir 9, Áróra Eir Pálsdóttir 5, Susan Ines Gamboa 3, Hulda Dagsdóttir 3, Sigríður Björg Þorsteinsdóttir 2, Ragnhildur Hjartardóttir 1, Fanney Ösp Finnsdóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 20.

Mörk KA/Þórs: Anna Þyrí Halldórsdóttir 7, Lydía Gunnþórsdóttir 5, Susanne Denise Pettersen 4, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 4, Selma Sól Ómarsdóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 16.

Viðtöl við þjálfara beggja liða birtast á handbolti.is í fyrramálið.

Tölfræði leiksins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -