- Auglýsing -
- Arnór Þór Gunnarsson og leikmenn hans í Bergischer HC unnu í gærkvöld þriðja leikinn í þýsku 2. deildinni á keppnistímabilinu. Bergischer HC vann Bayer Dormagen, 44:35, á heimavelli og er í efsta sæti deildarinnar. Tjörvi Týr Gíslason skoraði eitt mark fyrir Bergischer.
- Franska liðið US Ivy tapaði í gærkvöld sínum þriðja leik á leiktímabilinu í efstu deild franska handknattleiksins þegar Saint-Raphaël var sótt heim, 35:29. Grétar Ari Guðjónsson var annan hálfleikinn í marki US Ivry. Hann varði fimm skot, þar af eitt vítakast, 20%.
- Áfram er Ribe-Esbjerg annað tveggja liða dönsku úrvalsdeildarinnar sem ekki hefur krækt í stig fram til þess á keppnistímabilinu. Í gær tapaði Ribe-Esbjerg á útivelli fyrir Sønderjyske, 36:32. Ágúst Elí Björgvinsson var í marki Ribe-Esbjerg mestan hluta leiksins og varði 8 skot, 22%. Elvar Ásgeirsson kom lítið við sögu.
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði fimm mörk úr fimm skotum þegar lið hennar, TMS Ringsted, beið lægri hlut fyrir Ajax, 26:19, á útivelli í annarri umferð næst efstu deildar danska handknattleiksins í gær. Harpa María var markahæst í liðinu ásamt stöllu sinni sem einnig skoraði fimm mörk. Franska stórstjarnan Alexandra Lacrabere, sem óvænt gekk til liðs við TMS Ringsted fyrir keppnistímabilið, náði sér ekki á strik og skoraði aðeins eitt mark úr einu markskoti.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Tryggvi Þórisson skoraði ekki mark fyrir lið sitt þegar sænsku meistararnir IK Sävehof unnu Helsingborg, 31:29, á heimavelli í annarri umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í gær. IK Sävehof hefur unnið tvær fyrstu viðureignir sínar á tímabilinu.
- Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði fjögur mörk en Dagur Sverrir Kristjánsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson komust ekki á blað þegar HF Karlskrona vann Skövde, 28:21, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Phil Döhler kom lítið við sögu í marki HF Karlskrona í leiknum, ef marka má tölfræðina sem hægt er nálgast. HF Karlskrona hefur farið vel af stað í deildinni og er með þrjú stig eftir tvo leiki.
- Einar Bragi Aðalsteinsson var ekki í leikmannahópi IFK Kristianstad þegar liðið gerði jafntefli við Alingsås, 30:30, á útivelli í gær í annarri umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. IFK Kristianstad er með þrjú stig eins og grannliðið HF Karlskrona.
- Sveinbjörn Pétursson markvörður og samherjar hans í Hapoel Ashdod töpuðu á útivelli fyrir Hapoel Le Zion, 29:21, í fyrstu umferð efstu deildar ísraelska handknattleiksins í gær. Sveinbjörn gekk til liðs við Hapoel Ashdod í sumar að lokinni fjögurra ára veru hjá EHV Aue í Þýskalandi.
- Auglýsing -