- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magdeburg í úrslitum fjórða árið í röð

Leikmenn SC Magdeburg eftir sigurinn nauma á Al Ahly í undanúrslitum HM félagsliða í dag. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Þýska meistaraliðið SC Magdeburg leikur fjórða árið í röð til úrslita á heimsmeistaramóti félagsliða í Kaíró á morgun. Magdeburg vann egypsku meistarana, Al Ahly SC, 28:24, í undanúrslitaleik í kvöld. Óhætt er að segja að Magdeburgliðið hafi lent í kröppum dansi en það komst yfir í fyrsta sinn níu mínútum fyrir leikslok, 23:22.

Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson tvö auk fimm stoðsendinga.

SC Magdeburg leikur við Veszprém í úrslitaleiknum á fimmtudaginn. Veszprém lagði Barcelona í framlengdri viðureign fyrr í dag.

Leikmenn Al Ahly SC byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu til að mynda fjögur fyrstu mörkin og voru með sex marka forskot upp úr miðjum hálfleiknum, 11:5. Egyptarnir voru þremur mörkum yfir í hálfleik. Þeir vörðust vel framan af síðari hálfleik en sprungu á limminu á lokasprettinum.

Daninn Stefan Madsen tók við þjálfun Al Ahly SC í sumar eftir að hafa látið af störfum hjá danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold.

Manuel Zehnder var markahæstur hjá Magdeburg með níu mörk. Matthias Musche var næstur með átta mörk. Omar Hassan skoraði sex mörk fyrir Al Ahly SC Ahmed Adel var næstur með fjögur mörk.

Ítarlegri tölfræði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -