18 ára gamall piltur frá Akureyri, Bjarki Jóhannsson, var í leikmannahópi danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold á sunnudaginn gegn Mors-Thy í viðureign liðanna í úrvalsdeildinni í handknattleik.
Eftir því sem næst verður komist hefur Bjarki búið í Álaborg í fáein ár og æft af miklum móð enda ganga menn ekki inn í lið Aalborg, jafnvel þótt afföll séu vegna meiðsla.
Eins og fyrr segir er Bjarki frá Akureyri og lék upp yngri flokka með KA enda af KA-fjölskyldu. Faðir Bjarka er Jóhann Hermannsson og m.a. bræðra Jóhanns er Árni Hermannsson sem var m.a. í Íslandsmeistaraliði KA í knattspyrnu 1989, og Tómas Hermannsson bókaútgefandi. Sonur Tómasar og þar af leiðandi frændi Bjarka er Logi knattspyrnumaður Strømsgodset í Noregi og íslenska landsliðinu.