Áfram halda Haukur Þrastarson og samherjar hans í Dinamo Búkarest að vinna andstæðinga sína í rúmensku 1. deildinni í handknattleik á nokkuð þægilegan hátt. Í dag sótti Dinamo liðsmenn Odorheiu Secuiesc heim og vann með 11 marka mun, 36:25, í upphafsleik 6. umferðar í rúmensku úrvalsdeildinni.
Dinamo var þegar komið með átta marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 19:11.
Haukur hafði hægt um sig við markaskorun og lét nægja að skora tvisvar en margir af öflugri leikmönnum Dinamo léku aðeins hluta leiksins.
Turda ekki langt undan
Dinamo hefur 18 stig að loknum sex leikjum og er með þriggja stiga forskot á Potaissa Turda sem hefur leikið einum leik færra.
Potaissa Turda lék við Val og ÍBV í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik 2017 og 2018.
Minaur Baia Mare, CSM Constanta og Suceava sitja í þriðja til fimmta sæti með 12 stig hvert eftir fimm umferðir. Minaur Baia Mare mætti Val í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í vor sem leið.