- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Veszprém vann HM félagsliða í fyrsta sinn

Leikmenn og starfsmenn ungverska liðsins Veszprém. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Ungverska liðið Veszprém, sem Bjarki Már Elísson leikur með, varð í dag heimsmeistari félagsliða í handknattleik í fyrsta sinn í sögunni. Veszprém vann þýska meistaraliðið SC Magdeburg, 34:33, í framlengdum úrslitaleik í New Capital Sports Hall í Kaíró að viðstöddum um 3.000 áhorfendum. SC Magdeburg vann titilinn í fyrra og hitteðfyrra en tapaði úrslitaleiknum í kvöld eins og fyrir þremur árum.

Spænski þjálfarinn Xavier Pascual er byrjaður að vinna til verðlauna með Veszprém enda sérstaklega ráðinn til félagsins með það markmið. Ljósmynd/EPA

Þetta er um leið fyrsti titillinn sem Veszprém vinnur eftir að hinn sigursæli og snjalli spænski þjálfari, Xavier Pascual, tók óvænt við þjálfun liðsins í sumar.

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Ljósmynd/EPA

Leikurinn var hnífjafn og æsispennandi frá upphafi til enda. Veszprém virtist vera að tryggja sér sigurinn undir lok venjulegs leiktíma en Gísli Þorgeir Kristjánsson og Lukas Mertens skoruðu tvö síðustu mörkin og tryggðu framlengingu þar sem ungverska liðið hafði naumlega betur.

Bjarki Már Elísson tók ekkert þátt í úrslitaleiknum. Frakkarnir Ludovic Fabregas og Nedim Remili voru markahæstir hjá Veszprém með níu og átta mörk.

Ómar Ingi Magnússon reynir að fara a milli Hugo Descat og Yehia Mohamed Yehia Elderaa leikmanna Veszprém í úrslitaleiknum. Ljósmynd/EPA

Ómar Ingi Magnússon skoraði flest mörk leikmanna Magdeburg, sjö, þar af fjögur úr vítaköstum. Albin Lagergren var næstur með sex mörk og fyrrgreindur Mertens skoraði fimm sinnum. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf átta stoðsendingar. Ómar Ingi gaf tvær stoðsendingar.

Talsvert verðlaunafé

Sigurliðið fær 350.000 dollara í verðlaunafé, jafnvirði um 47 milljóna króna, tapliðið 100.000 dollara.

Egypska liðið Al Ahly vann Evrópumeistara Barcelona í leiknum um bronsverðlaunin, 32:29.

Verðlaunagripurinn sem Veszprém tekur með sér heim til Ungverjalands frá Egyptalandi. Ljósmynd/EPA

Ítarlegri tölfræði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -