Hinn þrautreyndi þýski markvörður Johannes Bitter tilkynnti í morgun að hann væri hættur í handknattleik, skórnir og keppnisbúningurinn færi upp á hilluna góðu. Til stóð að Bitter hætti í sumar. Hann lét tilleiðast halda áfram og brúa bilið þangað til markverðir HSV Hamburg hefðu jafnað sig af meiðslum. Nú eru báðir orðnir eldsprækir og Bitter sagði frá ákvörðun sinni í morgun.
Bitter, sem er 42 ára gamall, er síðasti leikmaður heimsmeistaraliðs Þýskalands frá 2007 til þess að hætta æfingum og keppni í handknattleik. Hann var markvörður þýska landsliðsins í 20 ár, frá 2002 til 2022 og tók þátt í 175 landsleikjum.
Ekki spenntur fyrir Barcelona
Lengst af ferilsins lék Bitter, eða „Jogi“ eins og hann er kallaður, með HSV Hamburg eða frá 2007 til 2016 og aftur frá 2021. Einnig lék Bitter með Wilhelmshavener frá 2002 til 2003, SC Magdeburg 2003 til 2007 og Stuttgart 2016 til 2021. Bitter var lengi undir smásjá Barcelona og sagði frá því samtali fyrr á þessu ári að hann hafi aldrei verið spenntur fyrir að rífa fjölskyldu sína upp og flytja til Spánar. Einnig hafi honum ekki þótt spænska deildarkeppnin vera áhugaverð..
Kaddur fyrir árslok
Bitter lék sinn síðasta leik í gærkvöld þegar HSV Hamburg mættir THW Kiel í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar. Kiel vann leikinn með þriggja marka mun 30:27. Bitter verður formlega kvaddur af stuðningsmönnum HSV Hamburg í síðasta heimaleik ársins, rétt fyrir jól.
Bitter heldur áfram sem varaforseti handknattleiksliðs HSV Hamburg auk þess að vinna fyrir sjónvarp sem sérfræðingur í kappleikjum, bæði í þýsku 1. deildinni og í kringum landsleiki.