- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjölnismenn bognuðu en brotnuðu aldrei – baráttusigur á Stjörnunni

Leikmenn Fjölnis fagna sigrinum sæta í kvöld. Ljósmynd/Þorgils G.
- Auglýsing -


Fjölnismenn unnu ævintýralegan sigur á Stjörnunni í Olísdeild karla í handknattleik í Fjölnishöllinni í kvöld, 29:28, eftir að hafa skoraði þrjú síðustu mörk leiksins. Liðin standa þar með jöfn að stigum, með fjögur hvort eftir fimm umferðir í deildinni. Ljóst er að vanhugsað var að afskrifa Fjölnisliðið með öllu áður en keppni í deildinni hófst fyrir mánuði.

Stjarnan var tveimur mörkum yfir, 14:12, eftir miklar sveiflur í fyrri hálfleik.

Reyndar blés ekkert byrlega fyrir Fjölnismönnum framan af síðari hálfleik í kvöld. Þeir lentu í tvígang sex mörkum undir, 20:14 og 22:16 þegar 19 mínútur voru til leiksloka. Allt gekk upp hjá Stjörnumönnum meðan sóknarleikurinn var mistækur hjá Fjölni auk þess sem markvarslan var ekki fyrir hendi. Markverðirnir virtust vera meira til málamynda en hitt.

Blés mönnum baráttuanda í brjóst

Gunnar Steinn Jónsson þjálfari Fjölnis blés sínum mönnum baráttuanda í brjóst þegar verst gekk og þeir aftur sex mörkum undir, 22:16. Eftir leikhlé skoraði Fjölnir fimm mörk í röð og minnkaði forskot Stjörnunnar niður í eitt mark, 22:21, 14 mínútum fyrir leikslok. Stjarnan bætti í forskot sitt á ný, 24:21 og 26:22, þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Um það bil datt botninn úr sóknarleik Stjörnunnar. Skotin misstu marks auk þess sem Bergur Bjartmarsson markvörður fór að verja skot og skot. Munaði það miklu.

Gáfu ekki þumlung eftir

Sex mínútum fyrir leikslok var munurinn tvö mörk, 26:24, Stjörnunni í vil sem tók leikhlé. Það skilaði engu. Fjölnismenn voru komnir með blóð á tennurnar. Þeir gáfu ekki þumlung eftir. Mikil barátta var í vörninni og ákafi við sóknarleikinn.

Haraldur Björn Hjörleifsson kom Fjölni yfir, 29:28, þegar 53 sekúndur voru til leiksloka. Fjölnir hafði þá ekki verið yfir síðan í stöðunni 6:5.

Komst inn í sendingu

Stjarnan tók leikhlé sem skilaði engu. Viktor Berg Grétarsson komst inn í sendingu og Fjölnir var kominn með öll spil á hendi 26 sekúndum fyrir leikslok. Gunnar Steinn tók þá sitt síðasta leikhlé. Að því loknu tók við darraðardans sem lauk 12 sekúndum fyrir leikslok þegar Fjölnisliðið tapaði boltanum.

Stjarnan brunaði fram í sókn þar sem kapp réði ekki forsjá í algleymi spennunnar.

Baráttusigur

Fjölnismenn fögnuðu kærkomnum tveimur stigum.
Leikurinn var ekki vel leikinn. Baráttan var í algleymi. Leikmenn Fjölnis unnu svo sannarlega fyrir sigrinum. Þeir bognuðu um skeið í leiknum en brotnuðu aldrei.

Mörk Fjölnis: Haraldur Björn Hjörleifsson 8/1, Viktor Berg Grétarsson 6, Óðinn Freyr Heiðmarsson 4, Björgvin Páll Rúnarsson 4, Alex Máni Oddnýjarson 2, Victor Máni Matthíasson 2, Brynjar Óli Kristjánsson 1, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 1, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Bergur Bjartmarsson 7, 38,9% – Sigurður Ingiberg Ólafsson 3, 15%, Sigurjón Ágúst Sveinsson 0.

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 10/2, Hans Jörgen Ólafsson 6, Daníel Karl Gunnarsson 3, Rytis Kazakevicius 3, Pétur Árni Hauksson 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 2, Jóel Bernburg 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 15/2, 34,9% – Sigurður Dan Óskarsson 0.

Tölfræði HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Handbolti.is var í Fjölnishöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -