Elías Már Halldórsson og liðsmenn hans í norska úrvalsdeildarliðinu í Fredrikstad Bkl. hafa unnið sér inn sæti í riðlakeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik. Fredrikstad vann Amicitia Zürich öðru sinni á tveimur dögum á heimavelli í dag, 28:20, og samanlagt með 20 marka mun, 61:41. Leikirnir voru liður í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar.
Ein umferð eftir
Þrátt fyrir að önnur umferð sé eftir í forkeppni Evrópudeildarinnar þá er Fredrikstad Bkl öruggt um sæti í riðlakeppninni sem hefst síðar í vetur. Ástæða þess er sú að eftir að dregið var í sumar varð franska liðið Nantes gjaldþrota. Nantes var eitt fjögurra liða sem ekki átti að taka þátt í forkeppninni.
Nantes heltist úr lestinni
Þegar Nantes heltist úr lestinni hófust hrókeringar og ungverska liðið Motherson Mosonmagyarovari KC tók sæti Nantes í riðlakeppninni. Þar með varð að fækka um eitt einvígi í annarri umferð forkeppninnar og kom það í hlut sigurliðsins um rimmu Fredrikstad eða Amicitia Zürich að hlaupa yfir aðra umferð.
Riðlakeppnin hefst rétt fyrir miðjan janúar en síðari umferð forkeppninnar lýkur 17. nóvember.
Fimm lið af 16
Auk Fredrikstad Bkl eru Ikast Handbold frá Danmörku, HSG Bensheim/Auerbach, Þýskalandi, Dunarea Braila H.C. og Motherson Mosonmagyarovari KC frá Ungverjalandi örugg um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar. Alls taka 16 lið þátt í riðlakeppninni. Verða þau dregin í fjóra fjögurra liða riðla.