Haukar svifu áfram í aðra umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í dag. Í annað sinn á tveimur dögum vann Hafnarfjarðarliðið stórsigur á KTSV Eupen í Belgíu, 30:17, í Sportzentrum Eupen. Samanlagt unnu Haukar með 35 marka mun í leikjunum tveimur í dag og í gær.
Dregið verður í næstu umferð Evrópubikarkeppninnar þriðjudaginn 15. október. Nöfn tveggja íslenskra liða verða í skálunum sem dregið verður úr. Fyrr í dag innsiglaði Valur sér þátttökurétt í næstu umferð keppninnar.
Eins og í fyrri leiknum í gær sem Haukar unnu, 38:16, þá réðu þeir lögum og lofum frá upphafi til enda. Leikmenn belgíska liðsins vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Staðan var 14:9 að loknum fyrri hálfleik.
Allir leikmenn Hauka fengu tækifæri til þess að láta ljós sitt skína í dag að Söru Sif Helgadóttur markverði undanskilinni. Elísa Helga Sigurðardóttir stóð vaktina í markinu og varði allt hvað af tók, m.a. tvö vítaköst.
Mörk Hauka: Birta Jóhannsdóttir 8, Sara Katrín Gunnarsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Alexandra Líf Arnarsdóttir 3, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Elín Klara Þorkelsdóttir 1, Ester Amíra Ægisdóttir 1, Ragnheiður Sveinsdóttir 1.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 15, 46,9%.