Dvöl handknattleiksmannsins Ólafs Brim Stefánssonar hjá MSK Povazska Bystrica í Slóvakíu var endasleppt. Hann er hættur hjá félaginu og fluttur heim til Íslands tveimur mánuðum eftir að greint var frá komu hans. Hvarf hann frá Slóvakíu án þess að leika opinberan kappleik með MSK Povazska Bystrica enda varð hann aldrei gjaldgengur með liðinu. Ólafur Brim staðfesti við handbolta.is í dag að hann væri fluttur heim. Lítur Ólafur í kringum sig eftir tækifærum með íslenskum félagsliðum.
Tilkynnt var um miðjan ágúst að Ólafur Brim hafi samið við MSK Povazska Bystrica. Fór hann út í nokkru hasti til þess að taka þátt í æfingamóti með liðinu í Tékklandi. Minna varð hinsvegar úr en efni stóðu til. Aldrei var gengið frá félagaskiptum og síðast þegar handbolti.is vissi til hafði ekki borist tilkynning til HSÍ um alþjóðleg félagaskipti. Ólafur lék þar af leiðandi aldrei með MSK Povazska Bystrica í deildinni í Slóvakíu. Fátt var um svör hvers vegna mál enduðu á þennan veg.
Þess má geta að MSK Povazska Bystrica hefur unnið sex fyrstu leiki sína í úrvalsdeildinni í Slóvakíu og hefur leik í Evrópubikarkeppninni um næstu helgi.
Ólafur kvaddi Gróttu fyrir ári eftir að hafa samið við Al Yarmouk í Kúveit. Reyndar millilenti hann hjá Herði á Ísafirði í skamman tíma áður en flugið var til tekið til Kúveit. Hjá Al Yarmouk var Ólafur fram undir mitt þetta ár.