- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dinart tekur við landsliði Svartfjallalands

Didier Dinart ábúðarmikill á svip sem landsliðsþjálfari Frakka. Hann hefur verið ráðinn þjálfari karlandsliðs Svartfjallalands. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Frakkinn Didier Dinart hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Svartfjallalands í handknattleik karla. Hann tekur við af Vlado Sola sem sagði af sér í vor eftir að Svartfellingar töpuðu fyrir Ítölum í undankeppni HM og misstu af þátttökurétti á HM sem fram fer í janúar. Meginverkefni Dinart verður að koma landsliði Svartfellinga á EM 2026.

Samhliða þjálfun landsliðsins verður Dinart áfram þjálfari franska 1. deildarliðsins US Ivry sem Darri Aronsson og Grétar Ari Guðjónsson markvörður leika með.

Dinart er einn þekktasti handknattleiksmaður Frakka og vann allt með franska landsliðinu á árunum 1996 til 2012 þegar hann lék alls 231 landsleik og þótti um árabil fremsti varnarmaður í evrópskum handknattleik.

Eftir að Dinart hætti að leika handknattleik tók hann við þjálfun franska landsliðsins 2016 og stýrði því til sigurs á HM á heimavelli árið eftir. Fljótlega tók að fjara undan Dinart í starfi og var honum sagt upp eftir EM 2020. Um skeið var Dinart þjálfari landsliðs Sádi Arabíu en líkaði ekki lífið þar og réðist til Parísarliðsins US Ivry sem þjálfari 2023.

Fyrstu leikir Svartfellinga undir stjórn Dinart verða í byrjun nóvember þegar undankeppni EM 2026 hefst.

Svartfellingar verða í riðli með Ungverjum, Slóvökum og Finnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -