„Mér fannst við eiga stig skilið úr þessum leik þrátt fyrir erfiðan síðari hálfleik,“ sagði Sólveig Lára Kjænested þjálfari ÍR eftir jafntefli, 20:20, í við Fram í 5. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Skógarseli í dag. ÍR-ingar skoruðu þrjú síðustu mörkin í leiknum og tókst að verjast kröftuglega síðustu mínútuna þegar Framliðið sótt ákaft í von um sigurmarkið.
Styrkleikamerki
„Mér fannst liðið sýna virkilegt styrkleikamerki með því að verjast síðustu sóknum Framara. Ég er mjög ánægð með stelpurnar,“ sagði Sólveig Lára en ÍR-liðið hefur gert tvö jafntefli en tapað þremur leikjum til þessa í Olísdeildinni. Sólveig segir sig og leikmenn meðvitaða um að meira búi í liðinu en það hefur sýnt í nokkrum leikja sinna til þessa þótt viðureignin við Fram í dag sé undantekning þar á.
Mikil vinnusemi
„Við höfum aðeins verið inni í okkur, ef svo má segja. Kannski hefur okkur skort sjálfstraust sem er óþarfi því stelpurnar eru flottar í handbolta. Við höfum bara aðeins þurft að minna okkur á þá staðreynd. Mér fannst þær koma af gríðarlegum krafti og af miklum aga inn í leikinn í dag. Vinnusemin var mikil sem meðal annars kom í veg fyrir að Fram fengi mörg hraðaupphlaup, nokkuð sem hefur verið aðalsmerki Framliðsins. Við litum mjög vel út á löngum köflum í leiknum,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is í Skógarseli í dag.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Frammistaðan var ekki nógu góð hjá okkur
Afgerandi staða Vals – jafntefli í Skógarseli – úrslit dagsins