Spánverjinn Jorge Maqueda leikmaður Industria Kielce missti stjórn á sér og beit Mirsad Terzic leikmann Wisla Plock og samherja Viktors Gísla Hallgrímssonar markvarðar í viðureign liðanna í pólsku úrvalsdeildinni í dag. Eftir að dómarar leiksins höfðu farið yfir upptöku af þessu fáheyrða atviki var Maqueda, sem er fyrrverandi landsliðsmaður Spánar, sýnt rautt og blátt spjald. Reikna má með að hann fái langt leikbann.
Danski handknattleiksáhugamaðurinn Rasmus Boysen vakti athygli á atvikinu í dag á Facebook-síðu sinni og birti myndskeiðið hér fyrir neðan.
Sló í brýnu leikslok
Oftar en ekki sýður upp úr í leikjum liðanna sem hafa verið þau tvö sterkustu í pólskum handknattleik síðustu áratug og jafnvel lengur. Eftir því handbolti.is kemst næst sló í brýnu á milli leikmanna eftir að leiknum lauk þótt það hafi ekki verið jafn alvarlegt og þegar Maqueda beit Terzic. Einnig mun hafa borið á rasískum ummælum áhorfenda í garð tveggja leikmanna Kielce en leikurinn fór fram í Plock.
Þjálfararnir ekki barnanna bestir
Xavi Sabate þjálfari Wisla sakaði Talant Dujshebaev um að hrækt á sig eftir leikinn. Dujshebaev segir Sabate hafa haft uppi rasísk ummæli í sinn garð sem ekki verða höfð hér eftir.
Dómararnir vísu leikmönnum af leikvelli í 21 skipti í leiknum.
Wisla Plock vann leikinn, 29:25.
Viktor fann til eymsla
Viktor Gísli Hallgrímsson lék ekki með Wisla Plock í dag. Hann fann fann fyrir smávægilegri tognun í innanverðu læri á æfingu í gær og sat þess vegna yfir í dag. Gamla brýnið Mirko Alilovic stóð í marki Wisla í fjarveru Viktors Gísla og brást ekki samherjum sínum.