- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur af liðinu og hvernig það mætti mótlæti

Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari og leikmenn Selfoss taka á móti Fram í Sethöllinni í kvöld. Mynd/Einar Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég stoltur af liðinu að ná fjórða sæti í deildinni og vera síðan hársbreidd frá sæti í undanúrslitum. Eins og staðan er hjá okkur þá er þetta gott þótt ég þoli ekki að tapa. Það breytist ekkert með árunum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss, við handbolta.is í gærkvöld eftir að Selfoss féll úr keppni fyrir Stjörnunni eftir tveggja marka tap á heimavelli, 30:28, í síðari viðureign liðanna.


Selfossliðið féll úr keppni á færri skoruðum mörkum á útivelli. Fyrri leikinn, sem fram fór í TM-höllinni í Garðabæ, vann Selfoss með tveggja marka mun, 26:24.

Hefði viljað sjá rautt spjald

„Í kvöld köstuðum þessu frá okkur með slæmum sendingum og skotum þegar kom fram á lokakafla leiksins. Til viðbótar voru Stjörnumenn klókir í lokin, meðal annars þegar Leó Snær [Pétursson] sótti vítakast. Eins vakna spurningar hvernig leikurinn hefði þróast ef Tandri Már Konráðsson hefði fengið rautt spjald snemma leiks þegar hann felldi Alexander. Þá hefði Stjarnan ekki getað leikið þá vörn sem hún gerði í leiknum. Fyrir mér var þetta alltaf rautt spjald á Tandra, hvað sem hver segir,“ sagði Halldór Jóhann og var óhress með þá ákvörðun Antons Gylfa Pálsson og Jónasar Elíassonar að láta tveggja mínútna refsingu duga á fyrrgreint brot sem leit illa út.

Atli Ævar Ingólfsson línumaður Selfoss átti frábært tímabil og skoraði 95 mörk í deildinni og úrslitakeppninni. Skotnýting hans var 75% samkvæmt HBStatz. Mynd/Selfoss/SÁ


„Við töpuðum ekki leiknum á ákvörðunum dómara. Við fórum sjálfir með leikinn og kannski vantaði okkur meiri kraft þegar kom fram á síðustu mínúturnar. Engu að síður þá hefði ég viljað sjá rautt spjald fara á loft,“ sagði Halldór Jóhann sem var að ljúka sínu fyrsta keppnistímabili með Selfossliðið.

Brothætt vegna meiðsla

„Liðið hefur verið brotthætt vegna margra meiðsla. Þar af leiðandi er ég stoltur af því að ná fjórða sæti í deildinni. Við hefðum viljað fara í undanúrslit. Það hefði verið frábært en föllum þess í stað úr leik núna á einu marki. Ég er ánægður með liðið og hvernig það hefur tekið öllu mótlætinu sem á okkur hefur dunið,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur.

Vilius Rasimas, markvörður Selfoss, hefur varið best markvarða Olísdeildarinnar. Mynd/J.L.Long

Langur meiðslalisti

Hergeir Grímsson, Ragnar Jóhannsson, Atli Ævar Ingólfsson og Vilius Rasimus markverðir glíma allir við meiðsli og hafa gert lengi en þraukað í gegnum tímabilið að sögn Halldórs Jóhanns. Rasimus er til dæmis á leið í aðgerð á hné vegna meiðsla. Þrátt fyrir þrautir hefur hann verið jafnbesti markvörður Olísdeildarinnar með nærri 40% markvörslu á keppnistímabilinu
Til viðbótar þá sleit Guðmundur Hólmar Helgason hásin í lok febrúar og hefur vitanlega ekkert verið með síðan.

Átján ára burðarás

Varnarleikur Selfossliðsins hefur verið bundinn saman af hinum 18 ára gamla Tryggva Þórissyni sem skotið hefur upp á stjörnuhiminn á leiktíðinni.

„Tryggvi hefur staðið í vörninni hjá okkur í öllum leikjum vetrarins og ekki misst úr vörn þegar honum hefur verið vísað af leikvelli. Hann er í liðinu sem fær á sig næst fæst mörk í deildinni í vetur. Tryggvi á sannarlega skilið meira lof fyrir frammistöðu sína en hann hefur fengið,“ sagði Halldór Jóhann.

Tryggvi Þórisson hinn ungi varnarjaxl Selfossliðsins hefur bundið vörn liðsins saman en liðið fékk á sig næst fæst mörk liðanna í Olísdeildinni. Mynd/Selfoss/SÁ


„Menn halda kannski að Tryggvi sé eldri en hann er. Hann hefur verið frábær og hefði að mínu mati mátt vera valinn efnilegasti leikmaður tímabilsins hjá Seinni bylgjunni, svo dæmi sé tekið,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Hleðsluhöllinni í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -