Dana Björg Guðmundsdóttir vinstri hornamaður norska liðsins Volda er nýliði í íslenska landsliðinu í handknattleik kvenna sem tilkynnt var í morgun en framundan eru tveir vináttuleikir við Pólverja hér á landi föstudaginn 25. og laugardaginn 26. október. Dana Björg hefur gert það gott með Volda í næst efstu deild norska handknattleiksins undanfarin þrjú tímabil.
Þrjár snúa aftur
Auk Dönu valdi Arnar Pétursson landsliðsþjálfari Berglindi Þorsteinsdóttur, Fram, Söndru Erlingsdóttur, TuS Metzingen, og Rut Arnfjörð Jónsdóttur, Haukum, á nýjan leik. Tvær þær síðarnefndu eru nýkomnar út á völlinn aftur að loknu fæðingarorlofi. Berglind á hinn bóginn er nýbyrjuð að leika á ný með Fram eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné í sumar.
15 af 16
Frá síðustu leikjum landsliðsins í lok september féll Lilja Ágústsdóttir úr Val út úr hópnum að þessu sinni vegna meiðsla. Fimmtán af sextán leikmönnum sem tóku þátt í mótinu í Tékklandi verða með gegn Pólverjum til viðbótar við Berglindi, Dönu Björgu, Rut Arnfjörð og Söndru.
Tveir leikir eftir rúma viku
Fyrri vináttuleikurinn við Pólverja fer fram í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal föstudaginn 25. otkóber klukkan 20.15. Daginn eftir mætast landsliðin í Sethöllinni á Selfossi klukkan 16. Báðar viðureignir verða senda út á Handboltapassanum, eftir því sem fram kemur í tilkynningu HSÍ í morgun.
Leikirnir eru áframhaldandi liður í undirbúningi fyrir Evrópumótið sem hefst 29. nóvember í Innsbruck í Austurríki með leik við Hollendinga.
Leikmennirnir 19 sem valdir hafa verið fyrir leikina við Pólverja eru:
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Aarhus Håndbold (61/2).
Hafdís Renötudóttir, Val (60/4).
Aðrir leikmenn:
Alfa Brá Hagalín, Fram (2/0).
Andrea Jacobsen, HSG Blomberg-Lippe (54/81).
Berglind Þorsteinsdóttir, Fram (26/5).
Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda Handball (0/0).
Díana Dögg Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe (54/73).
Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum (14/39).
Eín Rósa Magnúsdóttir, Val (21/45).
Elísa Elíasdóttir, Val (17/15).
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Kristianstad HK (17/11).
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Gróttu (2/1).
Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi (50/104).
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Haukum (115/244).
Sandra Erlingsdóttir, Tus Metzingen (32/145).
Steinunn Björnsdóttir, Fram (49/67).
Sunna Jónsdóttir, ÍBV (92/66).
Thea Imani Sturludóttir, Val (80/171).
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (139/401).