- Auglýsing -
- Auglýsing -

Naumt tap hjá báðum liðum Íslendinga

Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari Fredericia HK fylgist með leiknum í Veszprém í kvöld. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Danska handknattleiksliðið Fredericia HK tókst að velgja ungverska meistaraliðinu Veszprém, undir uggum í viðureign liðanna í 5. umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í Ungverjalandi í kvöld.

Eftir að Veszprém hafði verið með gott forskot lengst af viðureignarinnar þá saumuðu leikmenn Fredericia, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, að liðsmönnum Veszprém á síðustu mínútunum. Forskot heimsliðsins var aðeins eitt mark rétt fyrir leikslok, 33:32. Nær komst danska liðið ekki og liðsmenn Veszprém sluppu með skrekkinn, 34:32.

Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk fyrir Veszprém sem var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:12. Nedim Remili var markahæstur með níu mörk. Hugo Descat og Sergei Kosorotov skoruðu fimm mörk hvor.

Rólegt hjá Arnóri og Einari

Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson komu ekki mikið við sögu hjá Fredericia. Martin Bisgaard var markahæstur með sjö mörk. Reiner Dranquet var næstur með fimm mörk.

Vespzrém er efst í A-riðli með átta stig að loknum fimm leikjum. Fredericia rekur áfram lestina án stiga.

Máttu þakka fyrir sigurinn

Í B-riðli máttu leikmenn pólska liðsins Indurstria Kielce þakka sínum sæla fyrir að hreppa bæði stigin í heimsókn til Kolstad í Trondheim Spektrum. Artsem Karalek skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu, 33:32. Kolstad er áfram neðst í B-riðli með tvö stig eins og RK Zagreb.

Fimm mörk Sigvalda

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Kolstad og gaf eina stoðsendingu. Benedikt Gunnar Óskarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu eitt mark hvor. Benedikt Gunnar átti að auki eina stoðsendingu. Sigurjón Guðmundsson markvörður var ekki í leikmannahópi norsku meistaranna.

Dylan Nahi og Arkadiusz Maryto skoruðu átta mörk hvor fyrir Kielce.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -