„Það er alveg ljóst að við getum margt lagað og bætt frá þeim leik og við erum staðráðnar í að gera það,” sagði Sunna Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is spurð út síðustu viðureign við pólska landsliðið fyrir um mánuði á æfingamóti í Tékklandi. Þeirri viðureign tapaði íslenska landsliðið með 11 marka mun, 26:15.
Runninn er upp nýr dagur með nýjum fyrirheitum og í kvöld eigast landslið Íslands og Póllands við á ný í vináttuleik í Lambhagahöll Framarar í Úlfarsársdal. Flautað verður til leiks klukkan 20.15. Aðgangur verður ókeypis.
Þangað stefnum við
„Það er frábært tækifæri fyrir okkur að mæta pólska landsliðinu mánuði áður en EM hefst. Pólska landsliðið er á meðal tólf bestu landsliða Evrópu um þessar mundir. Þangað stefnum við. Okkar markmið er ekki bara að nálgast landsliðin sem eru á þessum stað á meðal bestu landsliða heims heldur við viljum við komast í þeirra hóp. Það gerum við meðal annars með því að leika gegn þeim og þróa okkar leik um leið. Okkur vantar ótrúlega lítið upp á. Við erum ótrúlega spenntar fyrir þessum leikjum,” sagði Sunna en auk leiksins í kvöld þá eigast landsliðin aftur við í Sethöllinni á Selfossi á morgun, laugardag, klukkan 16.
Leikmenn kvennalandsliðsins treysta á að almenningur mæti á leikina og láti vel í sér heyra. Aðgangur er ókeypis á báðar viðureignir, í kvöld kl.20.15 í Lambhaga og kl. 16 í Setjhöllinni á Selfossi á morgun, og ætti þar af leiðandi ekki að vera hamlandi þeim sem vilja hvetja landslið Íslands til dáða.
Skemmtilegt lið
„Pólverjarnir eru með skemmtilegt lið sem gaman er fást við,” segir Sunna en leikirnir eru liður í undirbúningi beggja landsliða fyrir EM sem hefst hjá íslenska landsliðinu með viðureing við Hollendinga í Innsbruck í Austurríki föstudaginn 29. nóvember.
Sunna viðkennir að tilhlökkun sé farin að gera vart við sig. “Það kemur fiðringur í magann þegar maður hugsar til þess að vera á leiðinni á stórmót annað árið í röð. Á undanförnum árum hefur verið byggður upp mjög góður grunnur hjá okkur. Hópurinn er mjög vel samstilltur. Við erum fullar tilhlökkunnar og munum gera okkar besta,” sagði Sunna Jónsdóttir fyrirliði landsliðsins í samtali við handbolta.is í gær.