- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórbrotin frammistaða þegar Pólverjar voru grátt leiknir – myndir

Elín KlaraLjósmynd/Hafliði Breiðfjörð Þorkelsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með sjö mörk. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Kvennalandsliðið lék sinn besta leik um langt árabil þegar það vann pólska landsliðið með sex marka mun, 30:24, í fyrri æfingaleiknum í Lambhagahöllinni í kvöld. Íslenski konurnar höfðu algjöra yfirburði í 45 mínútur í leiknum og voru þá með tíu marka forskot, 24:14. Staðan í hálfleik var 18:9, í stórbrotinni stemningu í keppnishöllinni en fjöldi Íslendinga og Pólverja mættu á leikinn. Sérsveitin sá síðan um að halda uppi stemningu utan vallar með íslensku konurnar léku við hvern sinn fingur innan vallar.

Síðari vináttuleikurinn fer fram á Selfoss á morgun, laugardag, klukkan 16.

Aðeins er mánuður síðan íslenska landsliðið tapaði fyrir pólska landsliðinu með 11 marka mun æfingamóti í Cheb í Póllandi.

Fyrri hálfleikur var hreint ævintýri af hálfu íslenska landsliðsins. Varnarleikurinn var frábær. Algjörlega var lokað á sóknarleik pólska liðsins. Sendinga rötuðu ekki inn á línuna né í horni. skotleiðum pólska liðsins var lokað. Hafdís Renötudóttir varði afar vel að baki varnarinnar, þar á meðal tvö vítaköst og var hársbreidd frá því þriðja.

Sóknarleikurinn var einstaklega vel útfærður, hraðinn var mikill og liðið lék sig í færi í hverri sókn. Tæknifeilar s.s. slakar sendingar samherja á milli sem því miður hafa verið algengar sáust ekki. Íslenska landsliðið hefur ekki árum saman leikið annan ein hálfleik eins og þennan þar sem allt small, jafnt í vörn sem sókn.

Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands í síðari hálfleik og kom forskotinu upp í 10 mörk, 19:9. Hún gaf tóninn fyrir næstu tíu mínútur. Íslenska liðið náði 10 marka forskoti, 24:14 þegar 16 mínútur voru til leiksloka. Þá kom slæmur kafli. Pólverjar skoruðu sjö mörk í röð og minnkuðu muninn í þrjú mörk, 24:21. Nær komust leikmenn pólska liðsins ekki. Íslensku konurnar blésu til sóknar á ný og tryggðu sér sætan og góðan sigur sem vonandi vegur þungt í farteskinu á komandi vikum.

Dana Björg Guðmundsdóttir lék síðustu átta mínútur leiksins í sínum fyrsta landsleik og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.
Þórey Rósa Stefánsdóttir fékk þungt högg á hægra hné seint í síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu. Óvíst er hvort meiðslin séu alvarleg. Katrín Anna Ásmundsdóttir kom í stað Þóreyjar Rósu og skoraði tvö góð mörk.

Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/1, Perla Ruth Albertsdóttir 5/4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Andrea Jacobsen 2, Kartín Anna Ásmundsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Dana Björg Guðmundsdóttir 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 8/2, Elín Jóna Þorsteinsdóttir 6/1.

Mörk Póllands: Monika Kobylinska 6/1, Daria Michalak 3, Paulina Uscinowicz 3, Aleksandra Olek 2, Aleksandra Tomczyk 2, Aleksandra Zych 2/1, Magda Balsam 2, Adrianna Gorna 1, Marlena Urbanska 1, Emilia Galinska 1/1, Aleksandra Rosiak 1.
Varin skot: Adrianna Placzek 13.

Handbolti.is var í Lambhagahöllinni og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -