o
Katrín Anna Ásmundsdóttir hafði nóg að gera í sínum fjórða A-landsleik í gær þegar landslið Íslands og Póllands mættust í vináttuleik í Sethöllinni á Selfossi. Vegna meiðsla Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur þá lék Katrín Anna stóran hlut leiksins, jafnt í vörn sem sókn, og varð m.a. markahæst með sjö mörk. Hún fékk afleysingu á lokakaflanum þegar Díana Dögg Magnúsdóttir og síðan Thea Imani Sturludóttir léku í horninu.
„Það má kannski segja það en maður vill alltaf standa sig betur,“ sagði Katrín Anna spurð hvort þetta hafi ekki verið hálfgerður draumaleikur hjá henni.
„Ég reyndi bara að stilla hausinn því ég á það til að vera smá stressuð,“ sagði Katrín Anna sem lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir mánuði í Tékklandi. Hún er hinsvegar þrautreynd eftir að hafa leikið með yngri landsliðunum á stórmótum undanfarin fjögur sumur og er ein af framtíðarkonum landsliðsins.
„Ég er stolt af hópnum. Framfarirnar eru miklar frá æfingamótinu sem við tókum þátt í fyrir um mánuði. Sigrarnir í leikjunum tveimur við Pólverja skipta miklu máli fyrir okkur. Þeir sýna að við getum alveg unnið liðin sem eru fyrir ofan okkur,“ sagði Katrín Anna Ásmundsdóttir landsliðskona og leikmaður Gróttu.
Kvennalandslið Íslands tekur þátt í EM sem hefst 29. nóvember. Næst kemur landsliðið saman til æfinga eftir þrjár vikur.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Katrínu Önnu efst í þessari frétt.
Sjá einnig: „Þetta er stórt framfaraskref“
Fengum það út úr leikjunum sem við vildum – framfarir á öllum sviðum
Sigrinum í gær var fylgt eftir með öðrum sigri á Pólverjum
Small allt saman hjá okkur um helgina
A-landsliðs kvenna – fréttasíða.