Afturelding vann öruggan sigur á Víkingi, 25:17, í upphafsleik sjöttu umferðar Grill 66-deildar kvenna í handknattleik að Varmá í kvöld. Með sigrinum færðist Aftureldingarliðið upp að hlið KA/Þór með níu stig en situr í öðru sæti. KA/Þór á leik til góða á Mosfellinga. Víkingar sitja í sjöunda sæti með fimm stig að loknum sex leikjum.
Segja má að úrslitin hafi ráðist í fyrri hálfleik að Varmá í kvöld. Aftureldingarliðið gaf tóninn með því að skora fjögur fyrstu mörk mörk leiksins. Eftir 20 mínútur var sjö marka munu, 9:2. Í hálfleik var forskot Aftureldingar níu mörk, 14:5. Varnarleikur Aftureldingar var öflugur gegn sóknarleik Víkinga auk þess sem Saga Sif Gísladóttir varði vel í markinu.
Síðari hálfleik bar þess merki að munurinn var mikill. Mosfellingar héldu í horfinu og unnu öruggan sigur.
Signý Pála Pálsdóttir var besti leikmaður Víkings í leiknum þrátt fyrir stórt tap. Hún varði 20 skot, 44%.
Á morgun heldur keppni áfram í Grill 66-deild kvenna þegar HK fær Berserki í heimsókn í Kórinn. KA/Þór tekur á móti FH í KA-heimilinu á sunnudaginn. Sama dag eigast við Valur 2 og Fram2.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Aftureldingar: Hulda Dagsdóttir 6, Anna Katrín Bjarkadóttir 4, Ragnhildur Hjartardóttir 3, Lovísa Líf Helenudóttir 3, Katrín Helga Davíðsdóttir 3, Susan Ines Gamboa 2, Drífa Garðarsdóttir 2.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 12/1, 42,9% – Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 1/1, 50%.
Mörk Víkings: Ída Bjarklind Magnúsdóttir 5, Hafdís Shizuka Iura 3, Ivana Jorna Meincke 3, Auður Brynja Sölvadóttir 2, Arnbjörg Bertha Kristjánsdóttir 1, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.
Varin skot: Signý Pála Pálsdóttir 20, 44,4%.
Tölfræði HBStatz.