Handknattleiksdeild ÍBV var í dag áminnt af mótanefnd Handknattleikssambands Íslands vegna hegðunar nokkurra stuðningsmanna liðsins á seinni viðureign ÍBV og FH í 8-liða úrslitum Olísdeildar karla sem fram fór í Kaplakrika á fimmtudagskvöld. Frá þessu er greint á Vísir.is.
„Það er ólíðandi að leikmenn og fjölskyldur þurfi að sitja undir svona á leikjum. Það getur ekki gengið upp til lengdar,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, í samtali við Vísi. Róbert segir ennfremur að verði ekki lát á verður gripið til sekta.
Davíð Óskarsson formaður handknattleiksdeildar ÍBV segir í samtali við Vísi hafa farið á æfingar yngri flokka deildar til að kveða niður framkomu af þessu tagi. Eyjamenn vilji hafa líf og fjör á leikjum sínum „en enginn vilji hins vegar heyra neitt í líkingu við þann munnsöfnuð sem notaður var á leikjunum við FH,“ segir í frétt Vísis sem lesa má hér í heild sinni.