- Auglýsing -
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði þrjú mörk í fjögurra marka tapi TMS Ringsted til Randers á Jótlandi í gær í næst efstu deild danska handknattleiksins, 26:22. Randers-liðið var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:13. TMS Ringsted er í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar með fjögur stig, eins og Randers sem er í sætinu fyrir ofan.
- Sandra Erlingsdóttir skoraði ekki mark fyrir TuS Metzingen þegar bikarmeistararnir töpuðu fyrir BSV Sachsen Zwickau, 28:22, í sjöundu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í gær. Leikið var í Zwickau. TuS Metzingen er í sjöunda sæti deildarinnar af 12 liðum með fimm stig.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði þrjú mörk þegar lið hans Skanderborg AGF vann Nordsjælland á heimavelli, 32:28, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Fælledhallen, heimavelli í Skanderborg AGF sem komið er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig þegar 10 leikir eru að baki.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði níu mörk fyrir Amo HK þegar liðið tapaði með eins marks mun fyrir Alingsås, 39:38, á heimavelli í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gær. Síðari viðureign liðanna fer fram sunnudaginn 17. nóvember. á heimavelli Alingsås.
- Fredrikstad Bkl, sem Elías Már Halldórsson þjálfar, tapaði í gær á heimavelli fyrir Oppsal, 26:21, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Fredrikstad er í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með fjögur stig að loknum átta leikjum. Oppsal er í fimmta sæti fjórum stigum ofar. Með Oppsal leikur Mali Halldorsson en faðir hennar er íslenskur. Mali kom lítið við sögu að þessu sinni.
- Auglýsing -