Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold sagði í morgun upp þýska þjálfaranum Maik Machulla. Hann tók við þjálfun liðsins í sumar þegar Stefan Madsen sagði starfi sínu lausu. Simon Dahl, sem verið hefur aðstoðarþjálfari, tekur við af Machulla og danski landsliðsmaðurinn Henrik Møllgaard verður aðstoðarþjálfari en mun áfram leika með liði félagsins.
Kom til starfa í sumar
Eins og áður segir kom Machulla til starfa hjá Aalborg Håndbold í sumar eftir að Madsen lét af störfum að loknum sex árum í stól þjálfara. Machulla þykir ekki hafa náð þeim tökum á liðinu sem vonast var eftir. Liðið hefur tapað nokkrum síðustu leikjum sínum í Meistaradeildinni og auk þess tapað tveimur leikjum og gert eitt jafntefli í viðbót við sex sigurleiki í dönsku úrvalsdeildinni. Á síðustu árum hefur Aalborg vart tapaði leik heimafyrir. Þess utan lék Aalborg Håndbold til úrslita í Meistaradeild Evrópu í vor og tapaði naumlega fyrir Barcelona.
Í tilkynningu frá þessu sigursælasta félagsliði Danmerkur á síðustu árum segir m.a. að liðið hafi ekki staðið undir væntingum það sem af er leiktíðar. Þar á ofan virðist sem liðið hrjái skortur á baráttuvilja og leikgleði. Það eru félaginu mikil vonbrigði að samstarf þess, leikmanna og þjálfara hafi ekki tekist betur en raun ber vitni um.
Kom frá Flensborg
Áður en Machulla tók við þjálfun Aalborg Håndbold var hann þjálfari Flensburg frá 2017 þangað til honum var sagt upp snemma árs 2023. Einnig var hann aðstoðarþjálfari Flensburg frá 2012 til 2017, þýskur landsliðsmaður um árabil og lék m.a. með félagsliðunum Magdeburg, Hameln, Nordhorn og Flensburg.