- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Var skemmtilega óvænt að fá símtalið“

FH-ingurinn Birgir Már Birgisson var valinn íslenska landsliðið í fyrsta sinn í dag. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Það var skemmtilega óvænt að fá símtalið,“ sagði FH-ingurinn Birgir Már Birgisson sem skyndilega var kallaður inn í íslenska landsliðið í handknattleik í dag þegar Sigvaldi Björn Guðjónsson heltist úr lestinni vegna meiðsla. Birgir Már, sem aldrei hefur leikið með A-landsliðinu mætti á sína fyrstu landsliðsæfingu í kvöld á gömlum heimavelli, Víkinni í Fossvogi.

Framundan hjá íslenska landsliðinu er að mæta Bosníumönnum í Laugardalshöll á miðvikudaginn klukkan 19.30 í fyrstu umferð undankeppni EM 2026.

Miðasala á Ísland – Bosnía.

Mikill heiður

„Það er mikill heiður að fá þetta tækifæri,“ sagði Birgir Már sem ljómaði af gleði þegar handbolti.is hitti hann að máli. Birgir Már, sem leikur í hægra horni og er einnig sterkur hraðaupphlaupsmaður, varð Íslandsmeistari með FH í vor og hefur verið einn af öflugri leikmönnum Hafnarfjarðarliðsins á leiktíðinni. Nóg hefur verið að gera hjá FH-liðinu, bæði heima og að heiman í haust og byrjun vetrar.

Allir eiga sér draum

„Ég viðurkenni að það var mjög skemmtilegt að fá boð um að mæta á landsliðsæfingu. Allir sem æfa handbolta eiga sér væntanlega þann draum að fá einhverntímann tækifæri með landsliðinu svo ég er einfaldlega stoltur að vera í þessum sporum,“ sagði Birgir Már sem leggur stund á nám í sálfræði í HR getur samræmt það við æfingar og keppni næstu daga.

Ef að líkum lætur verður Birgir Már í landsliðshópnum sem fer til Georgíu á föstudaginn til leiks við heimamenn í undankeppni EM, annarri umferð.

Frekar spenntur

Spurður hvort hann væri stressaður fyrir fyrstu æfinguna sagði Birgir Már svo ekki vera. „Frekar spenntur en stressaður,“ svaraði Birgir Már og brosti við. „Kannski fær maður einhverjar mínútur í leikjunum sem framundan eru. Maður þarf af leggja hart að sér á næstu æfingum og vinna fyrir tækifæri, það væri frábært. Það er allt undir mér komið. Spennandi vika er framundan,“ sagði Birgir Már Birgisson hornamaður úr FH og nýliði íslenska landsliðsins í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -