Rífandi gangur er í sölu aðgöngumiða á viðureign landsliða Íslands og Bosníu í undankeppni EM karla 2026 sem fram fer í Laugardalshöll annað kvöld, miðvikudag, og hefst klukkan 19.30. Kjartan Vídó Ólafsson markaðsstjóri HSÍ sagði fyrir stundu að rétt innan við 200 miðar hafi verið óseldir í morgunsárið þegar hann mætti til vinnu og leitaði upplýsinga hjá miðasölu Tix.
„Ég reikna alveg eins með að uppselt verði á leikinn í kvöld, jafnvel fyrr,“ sagði Kjartan Vídó galvaskur að vanda en vel á annað þúsund miðar voru til sölu. Laugardalshöll rúmar um 2.200 áhorfendur þegar best lætur.
Viðureign Íslands og Bosníu er sú fyrsta í 3. riðli í undankeppni EM 2026. Einnig eiga sæti í riðlinum landslið Georgíu og Grikklands sem eigast við í Grikklandi annað kvöld.
Íslenska landsliðið mætir landsliði Georgíu á sunnudaginn í Tbilisi. Handbolti.is verður í Tíblisi
Þriðja og fjórða umferð undankeppninnar fer fram um miðjan mars og lokaumferðirnar tvær í fyrri hluta maí.