„Við grófum okkur niður í mjög djúpa holu strax í upphafi leiksins og komum okkur í stöðu sem öll lið í deildinni væru í erfiðleikum með að vinna sig upp úr gegn Val,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR við handbolta.is í kvöld eftir átta marka tap ÍR-inga fyrir Íslandsmeisturum Vals í áttundu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik, 31:23. Holan sem Sólveig Lára nefndi er upphafskafli leiksins þegar Valur skoraði sex fyrstu mörkin áður en ÍR komst á blað eftir liðlega tíu mínútur.
Sjá einnig: Sigurinn var öruggur þegar upp var staðið
Staðan var 17:12 fyrir Val í hálfleik. Snemma í síðari hálfleik náði ÍR að minnka muninn í fjögur mörk en komst ekki nær þótt möguleikar hafi verið fyrir hendi.
Köstuðum ekki inn handklæðinu
„Ég er ánægð með það að leikmenn gáfust ekki upp því auðveldasta leiðin hefði verið að kasta inn handklæðinu. Leikmenn héldu áfram og reyndu að vinna sig út úr stöðunni,“ sagði Sólveig Lára ennfremur og bætti við.
„Ég er ánægð með margt í okkar leik en er svekkt með þessa slöku byrjun sem reyndist ákaflega erfið. Ég hefði viljað sjá hvað betri byrjun hefði gert fyrir okkur því leikurinn fór frá okkur á upphafskaflanum.“
Valur er á undan öðrum
„Valur er nokkrum skrefum á undan okkur og einu skrefi á undan öðrum liðum í deildinni. Mér finnst þær leika af fullum krafti á móti okkur og bera virðingu fyrir því sem við erum að reyna að gera.
Við verðum að lengja góðu kaflana og fækka um leið einföldum mistökum sem okkur er refsað fyrir með hraðaupphlaupum. Í því felst áfram okkar vinna,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is í Skógarseli í kvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 6/1, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 4, Vaka Líf Kristinsdóttir 4, Anna María Aðalsteinsdóttir 2, Karen Tinna Demian 2/1, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Guðrún Maryam Rayadh 1, Hanna Karen Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 7, 25,9% – Ingunn María Brynjarsdóttir 2, 15,4%.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/3, Thea Imani Sturludóttir 6, Hildigunnur Einarsdóttir 5, Sigríður Hauksdóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Hildur Björnsdóttir 3, Ásrún Inga Arnarsdóttir 1, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Lovísa Thompson 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 10/1, 34,5% – Elísabet Millý Elíasardóttir 3/1, 42,9%.
Tölfræði HBStatz.