„Lífið er aðeins öðruvísi. Það mun taka mig svolítinn tíma að aðlagast og koma mér aðeins inn í umhverfið hér heima,“ segir Rut Arnfjörð Jónsdóttir, 29 ára landsliðskona í handknattleik og nýr leikmaður KA/Þórs, sem flutti heim í sumar eftir að hafa leikið sem atvinnukona í handknattleik með nokkrum fremstu handknattleiksliðum Danmerkur síðustu 12 ár. Þar af undanfarin tvö ár með Danmerkurmeisturum Team Esbjerg.
„Úti í Danmörku var ég í atvinnumanna umhverfi meðan hér heima er um áhugamennsku að ræða í handboltanum. En það er æðislega gaman að sjá stelpurnar sem eru með mér í KA/Þórs-liðinu, hvað þær eru tilbúnar að leggja mikið á sig til að stunda handboltann á fullu. Þær eru annað hvort í fullri vinnu eða í námi um leið og þær eru á fullu í handboltanum. Mér finnst æðislegt að koma inn í þennan hóp og kynnast því hversu tilbúnar þær eru að leggja sig alla fram samhliða öðru. Á sama tíma er einnig létt yfir öllu, stemningin er frábær, enda á það fyrst og fremst að vera gaman að æfa og keppa í handbolta. Allar vilja gera vel. Metnaðurinn er mikill,“ segir Rut sem þykir gott að geta lagt sitt lóð á vogarskálina.
Góðar móttökur á Akureyri
Eins og fyrr segir þá flutti Rut heim í sumar og hún var ekki ein á ferð. Rut býr með Ólafi Gústafssyni handknattleiksmanni sem samdi við KA. Saman eiga þau rúmlega tveggja ára gamlan dreng. Rut segir vel hafa gengið að koma sér fyrir nyrðra og þau séu jafnt og þétt að falla betur inn í lífið og tilveruna á Akureyri.
„Á móti okkur tók mjög öflugt teymi fólks sem starfar í kringum KA/Þórsliðið og KA. Það hefur séð til þess að við höfum komið okkur vel fyrir og líður vel,“ segir Rut sem horfir eftirvæntingarfull fram á komandi keppnistímabil. Erfiður meiðslatími er að baki.
Verð að sýna skynsemi
„Staðan á mér er allt í lagi miðað við aðstæður. Um leið og covid-ið brast á í Danmörku var öllum æfingum hætt sem var ekki það besta fyrir íþróttamann, ekki síst þegar farið er að líða á ferilinn. Ég hef því jafnt og þétt verið að koma til baka síðustu vikur eftir að við fluttum heim. Ég verð hinsvegar að sýna skynsemi í þessum efnum. Gæta þess að fara ekki framúr mér vegna þess að ég ætla mér að klára keppnistímabilið, komast klakklaust í gegnum það. Ég verð að vera klók en reyna á sama tíma að vera á fullri ferð,“ sagði Rut og hló við.
„Með KA/Þór verð ég í öðru hlutverki og stærra en úti hjá Esbjerg sem dæmi. Núna verð ég að taka meira af skarið og skjóta til dæmis oftar á markið en ég hef gert. Hlutverk mitt er annað en mjög skemmtilegt. Ég hlakka til þess með þessum frábæra hóp hjá KA/Þór,“ segir Rut ennfremur.
Ætlar ekki að draga saman seglin
Rut segist ennfremur ótrauð halda áfram að gefa kost á sér í íslenska landsliðið en hún á rúmlega 90 landsleiki að baki. „Ég hef ennþá mikinn metnað fyrir landsliðinu og mun þess vegna gefa kost á mér ef Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, telur sig hafa einhver not fyrir mig í landsliðinu í komandi verkefnum. Ég er komin heim til þess að leika með mínu félagsliði af fullum krafti. Þar með ætti ég jafnt og þétt að komast í betra leikform. Um leið á ég að geta nýst landsliðinu betur ef eftir kröftum mínum verður leitað. Ég er ekki komin heim til þess að draga saman seglin.“
Samhliða handboltanum og uppeldi þá leggur Rut stund á nám í sálfræði við háskólann á Akureyri. Síðustu árin úti var ég í hlutanámi en nú er ég kominn í fullt nám og finn mig afar vel í þessum hlutverkum, það er að vera í námi, í handbolta og vera mamma,“ segir Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handknattleikskona hjá KA/Þór á Akureyri.