Belgar vöfðust ekkert sérstaklega fyrir króatíska landsliðinu, undir stjórn Dags Sigurðssonar, þegar liðin mættust í 5. riðli undankeppni EM 2026 í handknattleik í Varazdin í kvöld. Króatar voru með leikinn í hendi sér frá byrjun til enda og unnu með sjö marka mun, 30:23, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik. 16:12.
Mario Sostaric, samherji Janusar Daða Smárasonar hjá ungverska liðinu Pick Szeged, fór á kostum í króatíska landsliðinu. Hann skoraði 10 mörk í 13 skotum. Ivan Martinovic skoraði fjögur mörk. Raphaël Kotters skoraði sjö mörk fyrir Belga og var þeirra atkvæðamestur.
Tékkar unnu í Prag
Með Króötum og Belgum í riðli eru Tékkar og Lúxemborgarar. Þeir mættust í Prag í gærkvöld. Tékkar unnu örugglega þegar upp var staðið, 23:17, en allan fyrri hálfleikinn stóðu Lúxemborgarar fyrir sínu og náðu að velgja heimamönnum nokkuð undir uggum.
Til Lúxemborgar
Dagur heldur næst til Lúxemborgar með sveit sína til leiks við heimamenn á laugardaginn. Tékkar og Belgar mætast á sunnudaginn í Hasselt í Belgíu.
Pólverjar sluppu fyrir horn
Af öðru leikjum undankeppninnar í dag er það helst að segja að Pólverjar sluppu með skrekkinn á heimavelli gegn Ísrael, 32:32, eftir að hafa verið undir og það bara þónokkuð, lengst af.
13 mörk í 13 skotum
Svipaða sögu er að segja frá viðureign Hollendinga og Úkraínumanna en þeir síðarnefndu þóttu ekki líklegir til stórræðanna. Hollendingar máttu þakka fyrir nauman sigur, 40:39, eftir að hafa verið undir drjúgan hluta leiksins, m.a. 20:19, í hálfleik í Almere Hollandi.
Dani Baijens skoraði níu mörk fyrir hollenska liðið og Lars Kooij og Kay Smits átta mörk hvor. Smytro Artemenko skoraði 13 mörk fyrir úkraínska liðið í 13 skotum. Ihor Turchenko var næstur með níu mörk.
Ítalir bitu frá sér
Í gærkvöld voru Spánverjar í mestu vandræðum með Ítali sem virðast vera að færa sig upp á skaftið á handknattleikssviðinu. Spánn vann leikinn, sem fram fór í Port de Sagunt í Valencia, 31:30. Ítalir voru lengi vel með yfirhöndina í leiknum. Þeir höfðu m.a. tveggja marka forskot í hálfleik, 17:15. Ljóst virðist að sigur Ítala á Svartfellingum í umspili HM í vor var ekki tilviljun.
Stærsti sigur Færeyinga
Frændur okkar og nágrannar, Færeyingar, unnu sinn stærsta sigur í undankeppni stórmóts þegar þeir lögðu landslið Kósovó, 31:22, í Høllinni á Hálsi í gærkvöld. Óli Mittún skoraði átta mörk og átti sannkallaðan stórleik. Frændi Óla, Elias Ellefsen á Skipagøtu, skoraði sjö mörk og átti sjö stoðsendingar.
Færeyingar mæta Úkraínumönnum í Vilnius í Litáen á sunnudaginn en þar leikur úkraínska landsliðið heimaleiki um þessar mundir með innrásarstríð Rússa stendur yfir. Hollendingar sækja Kósovó heim til Pristina
Gauti var með Finnum í Podgorica
Að lokum er rétt að geta þess að Þorsteinn Gauti Hjálmarsson leikmaður Fram skoraði eitt mark fyrir finnska landsliðið þegar það tapaði naumlega fyrir landsliði Svartfjallalands í undankeppninni í EM í gærkvöld, 29:28. Leikurinn, fór fram í Podgorica í Svartfjallalandi, var sá fyrsti sem svartfellska landsliðið leikur eftir að Frakkinn Didier Dinart var ráðinn landsliðsþjálfari í haust.
Gauti verður vafalaust í eldlínunni í Vantaa í Finnlandi á sunnudaginn þegar finnska landsliðið mætir Ungverjum.
Úrslit allra leikja í undankeppni EM, 1. umferð er að finna hér fyrir neðan.