Ívar Benediktsson skrifar frá München – [email protected]
„Gísli Þorgeir er bara meiddur. Þetta er eitthvað í öxlinni en er ekki tengt gömlu meiðslunum heldur einhverskonar tognun sem hann varð fyrir í leik með Magdeburg. Það er ekkert vit í taka með meiddan mann með út sem getur ekki beitt sér í leiknum á sunnudaginn. Þar af leiðandi varð þetta niðurstaðan,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við handbolta.is í München í dag um ástæðu þess að Gísli Þorgeir Kristjánsson varð eftir heima í morgun þegar íslenska landsliðið hélt af stað til Georgíu til leiks við heimamenn í undankeppni EM 2026 á sunnudaginn.
Eins og handbolti.is sagði frá í dag var Benedikt Gunnar Óskarsson leikmaður Kolstad kallaður inn í hópinn í stað Gísla Þorgeirs áður en íslenska landsliðið hélt af landi brott í rauðabýtið.
Lá beinast við að velja miðjumann
„Það lá beinast við að velja miðjumann í staðinn. Benedikt Gunnar hefur verið með hópnum síðan á mánudaginn að við komum saman til æfinga fyrir leikina í tvo í undankeppninni,“ sagði Snorri Steinn ennfremur. Upp í erminni á landsliðsþjálfarinn ás í stað Gísla Þorgeirs í Hauki Þrastarsyni leikmanni Dinamo Búkarest sem ekkert kom við sögu í sigurleiknum við Bosníu í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn. Haukur hefur farið á kostum í leikjum rúmensku meistaranna í Meistaradeildinni á leiktíðinni.
Spennandi kostur
„Ég sé alveg fyrir mér að Haukur leysi miðjustöðina. Það er spennandi kostur og verður gaman fyrir okkur líka. Mér líst vel á þetta,“ sagði Snorri Steinm Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla við handbolta.is í dag.