Uppfært: Fundinum var frestað í skyndi um sólarhring innan við hálftíma áður en hann átti að hefjast. Stefnt að kynningu á morgun miðvikudag kl. 14.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna tilkynnir á morgun hvaða 18 konur hann velur til þess að taka þátt í Evrópumótinu í handknattleik kvenna sem hefst fimmtudaginn 28. nóvember í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi. HSÍ hefur boðað til blaðamannafundar í höfuðstöðvum Icelandair af þessu tilefni.
Ísland tekur þátt í EM kvenna í fyrsta sinn í 12 ár og verður í F-riðli ásamt Hollendingum, Úkraínubúum og Þjóðverjum.
18 konur fara á EM
Á dögunum var upplýst hvaða 35 konur skipa stóra hópinn fyrir mótið en úr honum verður fámennari hópur, 18 konur, valdar til þátttöku fyrir Íslands hönd. Tefla má fram 16 leikmönnum í hverjum leik.
Tveir leikir í Sviss
Lokaundirbúningur fyrir EM hefst mánudaginn 18. nóvember hér á landi. Farið verður til Sviss 21. nóvember og leikið gegn landsliði Sviss, 22. og 24. nóvember, áður en stefnan verður tekin til Innsbruck í Austurríki þar sem fyrsti leikur Íslands á EM verður föstudaginn 29. nóvember kl. 17 gegn hollenska landsliðinu. Tveimur dögum síðar leikur íslenska landsliðið við Úkraínu og aftur liða tveir dagar þegar röðin kemur að viðureign við þýska landsliðið. Eftir síðasta leikinn skýrist hvort íslenska landsliðið heldur áfram keppni eða heldur heim á leið. Tvö lið úr hverjum sex riðla mótsins halda áfram keppni í milliriðlum.
Með í þriðja sinn
Ísland hefur tvisvar áður tekið þátt í lokakeppni EM 2010 í Danmörku og tveimur árum síðar í Serbíu.
A-riðill – Debrecen: | B-riðill – Debrecen: |
Svíþjóð | Svartfjallaland |
Ungverjaland | Rúmenía |
N-Makedónía | Serbía |
Tyrkland | Tékkland |
C-riðill – Basel: | D-riðill – Basel: |
Frakkland | Danmörk |
Spánn | Sviss |
Pólland | Króatía |
Portúgal | Færeyjar |
E-riðill – Innsbruck: | F-riðill – Innsbruck: |
Noregur | Holland |
Austurríki | Þýskaland |
Slóvenía | Ísland |
Slóvakía | Úkraína |
- Riðlakeppnin verður leikin í Debrecen í Ungverjalandi, Basel í Sviss og Innsbruck í Austurríki.
- Tvö lið halda áfram úr hverjum riðli yfir milliriðla. Tvö neðstu liðin falla úr leik.
- Milliriðlar verða leiknir í Debrecen og Vínarborg.
- Færeyjar og Tyrkland taka í fyrsta sinn þátt
- Úrslitahelgi EM fer fram í Vínarborg.
- EM hefst 28. nóvember og lýkur með úrslitaleik 15. desember.