Flugferð þeirri sem Íslandsmeistarar Vals áttu að fara með í morgun til Kaupmannahafnar var seinkað um átta klukkustundir vegna illviðris. Valsliðið mætir Kristianstad HK í Svíþjóð kl. 13 á morgun í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik.
Valsliðið átti að fara í loftið á sjöunda tímanum í morgun og fljúga til Kaupmannahafnar. Í gærkvöldið var flugferðinni frestað eins og fjölda annarra ferða sem voru á áætlun snemma í morgun frá Keflavíkurflugvelli.
Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals sagði við handbolta.is að brottför frá Keflavíkurflugvelli hafi verið frestað til klukkan 14. Meðan beðið er eftir að lagt verður af stað til Keflavíkurflugvallar æfir Valsliðið upp úr klukkan 9 á Hlíðarenda.
Gangi áætlanir dagsins eftir standa vonir til þess að leikmenn Vals og starfsfólk verði á hóteli í Kristianstad á vesturhluta Skáns um klukkan 21 í kvöld, að sænskum tíma. Fólksflutningabifreið bíður Valsliðsins á Kastrupflugvelli í Kaupmannahöfn.
Viðureign Vals og Kristianstad HK hefst klukkan 13 á morgun að íslenskum tíma. Valur vann fyrri viðureignina á heimavelli á laugardaginn, 27:24.