„Þetta var alveg geggjað,“ sagði Díana Guðjónsdóttir annar þjálfara Hauka þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar eftir að Haukar tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik með tveimur sigrum á króatíska liðinu HC Dalmatinka Ploce í dag og í gær í afar jöfnum viðureignum, samanlagt, 41:39.
„Vörnin og markvarslan var frábær hjá okkur lagði og grunn að þessum árangri,“ sagði Díana sem var í óða önn við að pakka niður og koma Haukaliðinu upp í rútu en stefnan verður tekin beint til Split frá Ploce í kvöld en um hálfs annars tíma akstur er til Split frá Ploce. Haukarnir koma heim síðdegis á morgun. Gist verður í Split í nótt en flogið í rauðabítið á morgun frá borginni til München í Þýskalandi.
Sérstök dómgæsla
„Dómgæslan var svolítið öðruvísi í leiknum en við eigum að venjast en allt slapp þetta nú til sem betur fer. Leikurinn var einnig frekar grófur í dag og leikmenn eru aðeins hnjaskaðir eftir viðureignina. Það þarf sterk bein til þess að komast í gegnum þetta. Fyrir utan hvað þetta er jákvætt og gott fyrir íslenskan handbolta,“ sagði Díana Guðjónsdóttir á hlaupum í Ploce í Króatíu þegar handbolti.is náði stuttlega af henni tali.
Dregið á þriðjudag
Eftir því sem næst verður komist verður dregið til 16-liða úrslita á þriðjudaginn en leikirnir fara fram í fyrri hluta janúar.
Auk Hauka eru Valur einnig í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar.
Evrópubikarkeppni kvenna, fréttasíða..