„Leikurinn leggst mjög vel í okkur. Það er alltaf frábært að leika á heimavelli í glæsilegri umgjörð,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við samfélagsmiða félagsins spurður um viðureign Vals og HC Vardar í fimmtu og næst síðustu umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla sem fram fer í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.45 og er síðasti heimaleikur Vals í þessum hluta keppninnar.
Íslandsmeistarar FH leika einnig í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. FH sækir Gummersbach heim í SCHWALBE Arena í Gummersbach. Flautað verður til leiks klukkan 17.45.
Úrslitaleikur eftir viku?
Valur tapaði fyrri viðureigninni við HC Vardar, 33:26, 8. okótber. Voru Valsmenn ekki ánægðir með frammistöðu sína í viðureigninni og töldu sig geta gert mun betur. Það er einmitt markmið Valsara í kvöld að snúa taflinu við og vinna. Með sigri opnast fyrir möguleika á hreinum úrslitaleik um annað sæti F-riðils gegn Porto í Portúgal eftir viku í lokaumferð 32-liða úrslita riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Þjálfaraskipti hjá Vardar
Síðan Valur og Vardar mættust í byrjun október hafa orðið þjálfaraskipti hjá Vardar. Vlado Nedanovski var leystur frá störfum í lok síðasta mánaðar. Guillermo Milano var ráðinn í hans stað. Milano stýrir Vardar í fyrsta sinn í Evrópuleik í kvöld.
„Lið Vardar er örlítið eins og óskrifað blað fyrir okkur. Nýr þjálfari, Argentínumaður, tók við á dögunum. Vardarliðið hefur á að skipa tíu útlendingum. Þetta er lið sem er að koma upp,“ segir Óskar Bjarni og bætir við:
Einn sá skotfastasti
„Vardar vann Meistaradeildina 2017 og 2019 en lenti síðan í vandræðum með peninga og er jafnt og þétt að jafna sig.
Þekktasti leikmaðurinn er væntanlega Svartfellingurinn Vuko Borozan sem er einn skotfastasti handboltamaður Evrópu. Síðan er meðal annars hjá liðinu hægri horamaður Goce Georgievski sem hefur árum sama verið í landsliði Norður Makedóníu. Þetta eru allt sterkir leikmenn en á móti kemur að ef við náum alvöru leik þá getum við gert vel,“ segir Óskar Bjarni sem búið hefur lið sitt undir leikinn eins vel og kostur er.
Ætlum að gefa í
„Okkar markmið er gefa aðeins í, taka fram gömlu hraðlestina inn á gólfið, ná fram mikilli orku. Við höfum átt kafla og kafla í leikjum okkar í þessari keppni. Við ætlum að kalla allt okkar besta fram að þessu sinni,“ segir Óskar Bjarni.
Gaman að fá úrslitaleik
Mikið er undir hjá Valsmönnum í leiknum því með sigri fer liðið í úrslitaleik við Porto eftir viku um annað sæti riðilsins og um keppnisrétt í 16-liða úrslitum að því tilskyldu að Porto nái ekki stigi gegn Melsungen í Kassel í kvöld. „Ég held að það sé virkilega gaman fyrir strákana og félagið að vera í þeirri stöðu að leika um að komast áfram.
Áður en að því kemur verðum við að ná geggjaðri frammistöðu á heimavelli og setja leikmenn Vardar undir pressu,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson hinn þrautreyndi þjálfari karlaliðs Vals.
Hefðum strítt þeim með því að vera betri útgáfa af okkur
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 4. umferð, úrslit