- Auglýsing -
- Aldís Ásta Heimisdóttir átti sannkallaðan stórleik fyrir lið KA/Þórs í Eyjum. Hún lét sér ekki nægja að skora sex mörk úr átta skotum og vera markahæst heldur átti einnig átta löglegar stöðvanir, blokkeraði boltann einu sinni og stal boltanum tvisvar.
- Sunna Jónsdóttir fór á kostum í liði ÍBV í jafnteflisleik, 21:21, við KA/Þór á heimavelli á laugardaginn. Hún skoraði fjögur mörk í fimm skotum og batt vörn ÍBV saman. Sunna var með átta löglegar stöðvanir, varði tvö skot og stal boltanum þrisvar sinnum.
- Lovísa Thompson og Lilja Ágústsdóttir, tvær þær markahæstu í liði Vals gegn Haukum, geiguðu bara á einu markskoti hvor í leiknum sem Valur vann, 31:23. Lovísa skoraði níu mörk í 10 skotum en Lilja var með fimm mörk í sex tilraunum.
- Saga Sif Gísladóttir, markvörður Vals, varði 16 skot í leiknum sem gerir 42,1% hlutfallsmarkvörslu. Mariam Eradze, sem kom til Vals í sumar eins og Saga blokkeraði fjögur skot Hauka
- Færeyski landsliðsmarkvörðurinn, Annika Friðheim Petersen, byrjaði vel með Haukum þótt við ramman reip væri að draga gegn Valsliðinu. Petersen varði 15 skot og var með 32,6% hlutfallsmarkvörslu. Svíinn Sara Odden var markahæst hjá Haukum með átta mörk en þurfti til þess 21 skot. Mikið mun mæða á henni í sóknarleik Hauka á keppnistímabilinu, ef að líkum lætur.
- Hanna Guðrún Stefánsdóttir kunni vel við sig í TM-höllinni á föstudaginn, eins og stundum áður, þegar lið hennar Stjarnan vann FH í upphafsleik Olísdeildar 29:21. Hanna gefur þeim yngri ekkert eftir, nema að síður sé. Hún skoraði níu mörk í 10 skotum. Einnig stal Hanna Guðrún boltanum einu sinni. Anna Karen Hansdóttir, sem kom til Stjörnunnar í sumar frá Danmörku, skoraði fimm mörk í jafnmörgum skotum og stimplaði sig inn í í deildina.
- Heiðrún Dís Magnúsdóttir, markvörður Stjörnunnar, sem kom úr Fram fyrir tímabilið var vel með á nótunum og varði 11 skot, var með 39,3% hlutfallsmarkvörslu. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir, markvörður FH, varði einnig vel, alls 14 skot, 35% hlutfallsmarkvörslu.
- Britney Cots var allt í öllu í sóknarleik FH-inga í leiknum við Stjörnuna, skoraði 11 mörk af 18. Samherji hennar, Fanney Þóra Þórsdóttir, var með átta lögleg stopp í vörninni auk þess að stela boltanum einu sinni af Stjörnukonum og verja tvö skot í vörninni.
- Stórskytta Fram-liðsins, Ragnheiður Júlíusdóttir, var eini leikmaður Olísdeildar kvenna sem skoraði fleiri en 10 mörk í fyrstu umferðinni. Ragnheiður skoraði 12 mörk, nærri helming af 25 mörkum Fram-liðsins þegar það vann HK með eins marks mun í hörkuleik í Safamýri.
- Steinunn Björnsdóttir náði sjö sinnum að stöðva leikmenn HK á löglegan hátt í leiknum auk þess sem hún stal boltanum þrisvar af HK-liðinu. Stalla Steinunnar, Hildur Þorgeirsdóttir stöðvaði andstæðinginn fjórum sinnum og stal einu sinni af honum boltanum.
- Alexandra Líf Arnarsdóttir og Tinna Sól Björgvinsdóttir, leikmenn HK, stöðvuðu leikmenn Fram fimm sinnum hvor, í leiknum í Safamýri. Tinna Sól skoraði einnig tvö mörk úr þremur skotum.
- Unnið upp úr gagnagrunni HBStatz á heimasíðu Handknattleikssambands Íslands.
- Leikir annarar umferðar Olísdeildar kvenna:
- Föstudagur 18. september:
Origohöllin: Valur – Fram kl. 20 - Laugardagur 19. september:
KA-heimilið: KA/Þór – Stjarnan kl. 14.30
Schenkerhöllin: Haukar – FH kl. 15
Kórinn: HK – ÍBV kl. 15.30
- Auglýsing -