Þýska landsliðið, einn andstæðinga íslenska landsliðsins á væntanlegu Evrópumóti kvenna í handknattleik, vann austurríska landsliðið með tveggja marka mun, 28:26, í vináttulandsleik í Innsbruck í Austurríki í dag. Þjóðverjar þóttu ekki vera sannfærandi í leiknum, frammistaðan var kaflaskipt. Staðan var 13:9 þegar fyrri hálfleikur var að baki Þýskalandi í vil.
Þjóðverjar byrjuðu með látum og skoruðu átta af fyrstu 10 mörkunum í keppnishöllinni í Innsbruck. Heimaliðið lét það ekki slá sig út af laginu og komst jafnt og þétt inn í leikinn.
Staðan var jöfn, 16:16, eftir 39 mínútur og 20:19 tíu mínútum síðari. Þjóðverjar náðu fljótlega þriggja marka forskoti og tókst að hanga á forskotinu til leiksloka.
Íslenska landsliðið mætir þýska landsliðinu í þriðju og síðustu umferð F-riðils á EM þriðjudaginn 3. desember í Innsbruck.
Markahæstar í þýska liðinu: Behrend 6, Bölk 5, Smits 5, Hauf 5.
Markahæstar í austurríska liðinu: Ivancok-Soltic 7, Reichert 6/2, Kovacs 3/3, Hanfland 3.