„Þessi farsi hefur staðið yfir síðan síðla í október,“ segir Jóhannes Lange aðstoðarþjálfari Harðar á Ísafirði í samtali við handbolta.is en urgur er í Harðarmönnum eftir að HK2 gaf í morgun leik félagsins við Hörð sem fram átti að fara í kvöld í Grill 66-deild karla.
Viðureigninni var frestað á dögunum en gefinn annar dagur sem nú er runninn upp en ekkert bólar á Kópavogsliðinu sem lagði niður rófuna í morgun og ákvað að halda sig heima.
Harðarmenn vilja að mótanefnd fari þar með eftir reglum og refsi HK. Einnig segja Harðarmenn atvikið sýna að lengra sé frá Reykjavík til Ísafjarðar en frá Ísafirði og til höfuðborgarinnar.
Gert að finna nýjan leikdag
Viðureignin átti fara fram 15. nóvember. Í lok október fékk Hörður póst frá HSÍ um að vegna árekstrar leiks Harðar og HK2 í Grill 66-deild karla annars vegar og Vals og HK í Olísdeild karla hinsvegar verði að finna aðra dagssetningu fyrir fyrrnefnda leikinn. Herði var skipað að leita annars leikdags. Að sögn Jóhannesar mótmælti Hörður þessari tilskipun HSÍ. Ekki dugði Harðarmönnum að malda í móinnn. Köstuðu foráðamenn handknattleiksdeildar fram nokkrum hugsanlega dögum. Þeim var öllum vísað á bug af hálfu HK vegna þess að félagið treysti sér ekki til þess að leika úti á landi á virkum degi.
Frestað fram í mars
Mótanefnd HSÍ lagði til að leiknum yrði frestað fram á næsta ári og leikið yrði sömu daga og úrslitahelgi Poweradebikarsins. Hörður, eða forsvarsmenn hans, sögðu það ekki koma til álita. Bikarkeppnin ætti þá helgi.
Mótanefnda hjó á hnútinn
„Mótanefnd hjó á hnútinn sem kominn var upp og setti leikinn á þriðjudaginn 26. nóvember kl. 19.30 sem var svo sem enginn óskadagur okkar vegna leikja liðsins í Grill 66-deildinni á laugardaginn og 2. deildarliðið var í leik á sunnudaginn. Við unuðum úrskurðnum en vissum einnig að sú dagsetning sem mótanefnd ákvað rækist á prófdaga í háskólanum. Sú hefur nú orðið raunin,“ sagði Jóhannes og bætir við að Herði þykir ríkja vanvirðing í garð félagsins af hálfu þeirra sem verða að sækja lið heim sem eru utan höfuðborgarsvæðisins.
Ekki sama Jón og séra Jón
„Við erum orðin þreytt á að liðin á höfuðborgarsvæðinu gera sífellt tilraunir til að breyta fyrirfram ákveðnum leikdögum þegar það rennur upp fyrir þeim það ljós, oft með skömmum fyrirvara, að þau eigi fyrir höndum leik vestur á Ísafirði. Á sama tíma er okkur gert að sækja leiki suður í Reykjavík sama hvernig veðrið er eða hvaða dagur er,“ segir Jóhannes og bætir við að Hörður setji einnig spurningamerki við vinnubrögð og frammistöðu mótastjóra HSÍ.
Átti að segja sig frá málinu
„Hann liðkaði ekki til í þessu máli. Það má lesa út úr tölvupóstsamskiptum að hans markmið hafi verið að fresta þessum leik, Harðar og HK2, fram yfir áramót og þá helst fram á sömu helgi og leikið verður til úrslita í Poweradebikarnum. Mótastjóri HSÍ átti að sjá sóma sinn í að segja sig frá málinu þar sem hann tengist öðru félaginu, er meðal annars þjálfari yngri flokka HK. Svo fór að hann svaraði ekki tölvupóstum vegna málsins í 10 daga og þar af leiðandi gerðist ekkert sem leiddi til þessa að leikurinn datt upp fyrir með skömmum fyrirvara í morgun,“ segir Jóhannes ómyrkur máli.
Á að fara eftir eigin reglum
„Héðan af er okkar krafa sú að HSÍ refsi HK samkvæmt 33. grein þar sem fram kemur hvað skuli gera ef lið mæta ekki til leiks. Við reiknum með að mótanefnd hafi bein í nefinu til þess að fara eftir eigin reglugerð svo að félög geti ekki upp á sitt einsdæmi ákveðið á leikdegi að mæta ekki til leiks,“ segir Jóhannes Lange aðstoðarþjálfari Harðar á Ísafirði í samtali við handbolta.is.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.