0
„Hótelið er mjög gott, maturinn er rosalega góður. Það er Alpastemning yfir þessu. Við erum í toppmálum,“ segir Þórey Rósa Stefánsdóttir leikreyndasti leikmaður íslenska landsliðsins sem hefur keppni á Evrópumótinu í Innsbruck í Austurríki á föstudaginn. Handbolti.is hitti Þóreyju Rósu að máli á hóteli landsliðsins í borginni í kvöld þar sem m.a. var búið að setja upp jólatré þótt aðventa sé ekki hafin.
Hlökkum til næstu daga
Þórey Rósa segir að mikil og góð stemning sé í íslenska hópnum eftir góðan undirbúningstíma, fyrst við toppaðstæður í Schaffhausen í Sviss og í Innsbruck síðan á þriðjudag. „Við erum ánægðar með að vera mættar til leiks í Innsbruck og hlökkum til komandi daga,“ segir Þórey Rósa sem er að hefja sitt fjórða stórmót með landsliðinu.
„Við erum reynslunni ríkari frá síðasta ári og njótum þess að vera saman og gera okkar besta,“ segir Þórey Rósa og bætti við spurð um markmið landsliðsins á komandi dögum.
Ná fyrsta sigrinum
„Við viljum ná okkar fyrsta sigri á EM. Um leið þá þarf stundum bara einn leik til þess að breyta landslaginu í riðlinum.”
Sjáum ákveðna möguleika
„Hollenska landsliðið hefur verið í fremstu röð undanfarin ár og verður mjög verðugur andstæðingur. Eftir að hafa farið vel yfir leik hollenska liðsins þá höfum við séð ákveðna möguleika sem við ætlum okkur að nýta. Einnig mun leikurinn snúast um að gera hlaupið þeim hafa stjórn á hraða leiksins. Eiga góðan leik.
Við fáum fullt af fólki út til þess að styðja okkur. Okkar er að ná orkunni upp og gera allt sem við getum gert til þess að standa í sterku liði Hollendinga,“ segir Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolti.is í Innsbruck.
Lengra viðtal er við Þóreyju Rósu í myndskeiði efst í þessari frétt.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Sjá einnig: EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni