Eftir átta leiki í röð án taps í Olísdeild karla þá biðu Valsmenn lægri hlut í dag þegar þeir sóttu ÍBV heim í íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir stórleik Úlfars Páls Monsa Þórðarsonar fyrir Val þá voru Eyjamenn talsvert sterkari í leiknum, ekki síst í síðari hálfleik, og unnu með sex marka mun, 34:28. ÍBV, sem hafði tapað tveimur leikjum í röð í Olísdeild, voru marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:17.
Valsmenn voru fjarri sínu besta í síðari hálfleik og misstu leikmenn ÍBV jafnt og þétt frá sér eftir því sem á síðari hálfleik leið.
Úlfar Páll skoraði 16 af 28 mörkum Vals að þessu sinni, þar af voru sjö úr vítaköstum.
Þrátt fyrir sigurinn situr ÍBV áfram í sjötta sæti Olísdeildar með 13 stig að loknum 12 leikjum en þetta var síðasta viðureignin í umferðinni. Valur er þremur stigum ofar í þriðja sæti með 16 stig. FH er á toppnum eftir nauman sigur á Fram í gær. FH-ingar hafa unnið sér inn 19 stig.
Kári Kristján Kristjánsson tók út síðari leikinn af leikbanni sem hann var dæmdur í af aganefnd HSÍ á dögunum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildinni.
Mörk ÍBV: Gauti Gunnarsson 8/4, Daniel Esteves Vieira 7, Sigtryggur Daði Rúnarsson 6, Andri Erlingsson 4, Sveinn Jose Rivera 6, Ívar Bessi Viðarsson 2, Marino Gabrieri 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 10, 31,3% – Pavel Miskevich 2/1, 28,6%.
Mörk Vals: Úlfar Páll Monsi Þórðarson 16/7, Allan Norðberg 5, Agnar Smári Jónsson 2, Miodrag Corsovic 1, Magnús Óli Magnússon 1, Andri Finnsson 1, Viktor Sigurðsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7, 21,9% – Arnar Þór Fylkisson 2, 25%.
Tölfræði HBStatz.