- Ég er mættur á mitt 20. stórmót í handbolta sem blaðamaður, Evrópumót kvenna, sem hófst á fimmtudaginn í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi. Til Innsbruck kom ég ásamt Hafliða Breiðfjörð ljósmyndara á miðvikudaginn eftir að hafa staldrað við í München í sólarhring og m.a. farið á ágæta tónleika Kaleo í vöruskemmu í borginni.
- Ég er ánægður með að hafa náð þessum 20 móta áfanga sem hefur lítið annað að segja en fyrir sjálfan mig. Meira að segja svo ánægður að ég færði þetta í tal við kunningja sem ég hitti á förnum vegi í Innsbruck í gær. Honum þótti þetta hvorki merkilegt né umtalsvert, ekkert fremur en ég hefði sagt honum að ég hefði byrjað deginn á að drekka vatn.
- Enn sáttari er ég við minn litla fréttamiðil, sem er nánast rekinn mánuð fyrir mánuð, getur kostað för fyrsta flokks ljósmyndara með í fyrsta sinn á stórmót kvenna í handknattleik. Því átti handbolti.is þess ekki kost á HM á síðasta ári af fleiri ástæðum en þeim fjárhagslegu. Eins og nærri má geta þá skipta góðar ljósmyndir gríðarlegu máli.
- Fyrsta stórmótið mitt var HM 1995 sem fram fór á Íslandi. Á nærri 30 árum hefur orðið gjörbylting á öllum þáttum stórmóta. Vart er hægt að bera saman umgjörð mótanna auk þess hefur tæknin gjörbreyst. Varla hafði nokkur maður heyrt um Internetið 1995 og að senda tölvupóst á milli húsa þótti nánast eitt af undrum veraldar.
- Fyrir 30 árum létu sér fáir dreyma um að íslenskt kvennalandslið tæki þátt í stórmóti. Það gerðist 15 árum eftir HM 1995 að Ísland vann sér inn fyrst þátttökurétt á EM kvenna. Árið eftir á HM kvenna. Enn á ný var landsliðið á EM kvenna 2012. Eftir það kom 11 ára hlé þangað til landsliðið tók þátt í HM á síðasta ári. Vissulega vann landsliðið sér ekki beinan þátttökurétt en það fékk boðskort í framhaldi af miklum framförum, því má ekki gleyma.
- Annað árið í röð er kvennalandsliðið á stórmóti. Mætir til leiks reynslunni ríkara eftir HM í fyrra. Einn leikur er að baki gegn Hollendingum á föstudaginn og tveir standa fyrir dyrum, gegn Úkraínu í kvöld og Þýskalandi á þriðjudag. Hvort heimferð tekur við á miðvikudag eða ferðalag til Vínarborgar í milliriðla ræða að úrslitum leikjanna tveggja sem eftir eru.
- Gengið hefur verið súrt og sætt á þeim 19 stórmótum sem ég hef mætt á sem blaðamaður. Aldrei læri ég af reynslunni heldur vonast ég ævinleg eftir því besta, hvort sem það er raunhæft eða ekki. Nú vonast ég ekki aðeins eftir fyrsta sigrinum á EM kvenna heldur einnig að leikir Íslands verði fleiri en þeir þrír. Það bara svo gaman að ævintýrum.
- Gamli maðurinn, ég, skrölti með unga fólkinu, lotinn í herðum, ólundarlegur á svip, og fylgist með. Geri það sem ég nenni að gera og sleppi hinu núna eftir að ég varð eigin herra. Fyrst og fremst þakklátur fyrir að fá að vera með enda ungmennafélagsmaður að upplagi. Þegar þátttöku Íslands lýkur á EM kvenna, líða aðeins nokkrar vikur í 21. stórmótið, HM karla. Það styttist í hinn endann.
- Áfram skröltir hann þó…., söng Ómar Ragnarsson um árið.
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -